143. löggjafarþing — 59. fundur,  29. jan. 2014.

staðgöngumæðrun, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra.

[17:43]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil fyrst af öllu í upphafi máls míns þakka hæstv. ráðherra fyrir þau vinnubrögð sem hann viðhefur í þessu máli. Sú munnlega skýrsla sem hann hefur hér flutt er góður grunnur til samtals og hinn skriflegi grunnur hennar sömuleiðis. Það er fagnaðarefni að fá svona vandaðan og yfirvegaðan grunn til umræðu um jafn flókið og vandasamt mál og það sem hér er til meðferðar.

Ég vil í fyrsta lagi minna á að í flokkssamþykkt Samfylkingarinnar er andstaða við að heimila staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni. Ég var sjálfur andvígur þeirri tillögu sem var grunnur þessarar vinnu sem hér um ræðir og efasemdir mínar í þessu máli hafa ekki minnkað.

Ég vil í fyrsta lagi nefna að mér finnst grunnhugmyndin um að tilvist alþjóðlegs markaðar, þjónustumarkaðar að þessu leyti, kalli á einhvers konar breytingar á reglum um staðgöngumæðrun af velgjörð ekki ganga upp. Það er engin sérstök ástæða fyrir því að alþjóðlegur þjónustumarkaður að þessu leyti þurfi að kalla á breytingar á reglum um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni.

Þau eru auðvitað margrædd sjónarmið kvenfrelsis sem skipta lykilmáli í þessu máli um að konur ráði líkama sínum, en það er ekki síður mikilvægt að varpa kastljósinu á þá staðreynd að með staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni verður til nýr einstaklingur sem hefur réttindi. Honum fylgja skyldur þeirra sem að honum standa og honum fylgja tilfinningar, væntingar og þrár, sem ekki er hægt að gera að fullu ráð fyrir eða leggja grunn að eða sjá fyrir í löggjöf.

Í hinni ágætu greiningu sem ráðherra hefur lagt fram er t.d. fjallað um að ekki sé hægt að leggja til grundvallar meginviðhorf samningsréttar að þessu leyti og því er ég sammála. Það sé heldur ekki hægt að binda móður fyrir fram. Það þýðir þá líka að hún hlýtur að hafa eitthvert svigrúm til þess að skipta um skoðun, og hver er réttur hennar til þess að skipta um skoðun eftir að barnið er fætt? Og hvernig er hægt með bindandi hætti að krefjast þess að manneskja afneiti tilfinningum sínum fyrir fram, ef menn gefa sér það, og ég er sammála því mati, að hin almennu viðmið samningsréttar eins og samningsfrelsisins gildi ekki á þessu sviði?

Það er heldur ekki einfalt að gera þennan greinarmun á hagnaðarskyni og velgjörð. Hvað með fólk í félagslega mun lakari stöðu? Hvað með fólk í mun lakari stöðu efnalega? Hvað með fólk sem á alls kostar, félagslega og efnalega, til þess að fara fram á ýmislegt af vinum og ættingjum? Þar færast auðvitað til mörkin milli velgjörðar og hagnaðarskyns. En það er líka þannig að um leið og við mundum festa í lög almennar reglur um staðgöngumæðrun af velgjörð færum við til markalínurnar um möguleika fólks á að standa gegn slíku og við breytum þrýstingnum á þær konur sem koma til greina sem staðgöngumæður. (Forseti hringir.) Við segjum að þetta sé ásættanlegt með ákveðnum hætti en það er staða sem ég er ekki farinn að sjá rök fyrir að geti byggt á siðferðilega sterkum grunni.