143. löggjafarþing — 83. fundur,  27. mars 2014.

verndartollar á landbúnaðarvörur.

[10:51]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Nú veit ég eiginlega bara ekki hvar ég að byrja. Evrópusambandið er tollabandalag þannig að ekki eru lagðir tollar á vörur sem fluttar eru á milli Evrópusambandsríkjanna. En það er rétt að Evrópusambandið leggur á tolla á vörur sem koma frá öðrum svæðum.

Ég er bara ekki sammála því að það geti ekki verið stefna stjórnvalda að ákveða að lækka hér tolla til að lækka matvælaverð, alveg óháð því hvort við gerum aðra samninga. Auðvitað er mjög mikilvægt að reyna það.

Ég held að ég fari rétt með þegar ég segi að Svíar hafi til dæmis ákveðið að lækka tolla hjá sér til að lækka matvælaverð í landinu með hagsmuni heimilanna að leiðarljósi. Það er alveg fær leið.

Skil ég það rétt að ráðherra ætli ekki að fara að gera neitt í þessum 76% tolli á franskar kartöflur og 59% tolli á kartöfluflögur? Finnst honum það bara hið besta mál vegna þess að við flytjum inn einhverjar aðrar landbúnaðarvörur án tolla? Þegar við tölum hér um landbúnaðarvörur erum við kannski fyrst og fremst að tala um osta, mjólkurvörur og kjöt.