143. löggjafarþing — 90. fundur,  2. apr. 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[15:51]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Í fyrsta lagi varðandi það að úrræðið gagnist betur þeim sem hærri hafa tekjurnar er á það að líta að rétturinn til að nýta séreignarsparnaðinn til uppgreiðslu á húsnæðisláni er hlutfallslegur af launum. 500 þús. kr. viðmiðið setur því mörk hversu há launin geta verið. Þess vegna má segja að eftir því sem launin verða hærri, þegar þau eru farin upp fyrir 700 þús. kr., koma skerðingar. Þetta er fyrir heimilin.

Meðaltekjur í landinu eru rétt um 400 þús. kr. þannig að rétturinn er fullnýttur þegar hjón með meðaltekjur hafa nýtt sér hann. Þeir sem eru með hærri tekjur lenda í skerðingum. Aðrir fá að nýta réttinn að fullu, geta tekið þessi 4% og 2% af launum sínum til ráðstöfunar á húsnæðisláninu.

Hvernig bregst maður þá við hinni spurningunni, að það kunni að vera lægri fjárhæð? Svarið við því er einfaldlega að gera má ráð fyrir því að þeir sem eru með lægri tekjurnar séu með eitthvað lægri lán og greiðslubyrði þeirra í einhverju samræmi við heildartekjur heimilisins. Það er meginregla þegar við skoðum skuldastöðu heimilanna að lánin haldast í ákveðnu samhengi við heildartekjur heimilanna.

Bent hefur verið á að ekki séu allir að spara. Það er gild ábending, en þetta er þó verulega almennt úrræði, þ.e. það er vinsælt, það hefur verið mikið nýtt og mikill meiri hluti landsmanna nýtir sér úrræðið. Þess vegna hef ég ekki sérstakar áhyggjur af því, en maður ætti kannski frekar að spyrja hver staðan sé og þörfin hjá þeim sem ekki sjá sér fært að leggja til hliðar í þessum tilgangi í séreignarsparnaðarkerfið. Við eigum enn eftir að fá svar við því hvort skattafslátturinn sem hér er um að ræða verði það sem ríður baggamuninn og verði sá (Forseti hringir.) hvati sem upp á vantar til þess að viðkomandi (Forseti hringir.) fari einmitt að spara.