143. löggjafarþing — 90. fundur,  2. apr. 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[15:53]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið. Það sem kemur fram er að þó að margir leggi fyrir í séreignarsparnað höfum við í raun ekki upplýsingar um ástæður þess af hverju fólk gerir það ekki. Eins og ég sagði áðan liggur þá nánast beint við að draga þá ályktun að fólk telji sig ekki aflögufært til að spara. Því hefur verið haldið fram af forsvarsmönnum ríkisstjórnarinnar að þetta sé sá hluti aðgerðanna sem gagnist til að mynda leigjendum en miðað við verð á leigumarkaði, til að mynda á höfuðborgarsvæðinu, og aðstæður margra þeirra sem þar eru dreg ég þá ályktun að það sé einmitt sá hópur sem síst er aflögufær.

Ég spurði hæstv. ráðherra líka áðan um fyrirséðan tekjumissi í framtíðinni, bæði hvað varðar ríki og sveitarfélög, og hvaða samráð hefði verið haft til að mynda við sveitarfélögin eftir að þessar tillögur voru kynntar. Þau kvörtuðu undan samráðsskorti fyrir þær tillögur sem voru kynntar í nóvember. Það væri gott ef hæstv. ráðherra gæti farið yfir það.