143. löggjafarþing — 90. fundur,  2. apr. 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[16:27]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hæstv. ráðherra gefur sér í þessu andsvari þá forsendu að allir eigi frjálst val um að leggja fyrir í séreignarsparnað. Þegar um er að ræða lágtekjufólk sem nær ekki endum saman og allar kannanir sýna að nær ekki endum saman á það fólk ekki frjálst val. Það fólk fær því fyrirheit um minni ríkisstuðning, ef það gæti fundið peningana til að leggja fyrir, og þegar það finnur þá ekki einu sinni fær það engan ríkisstuðning.

Á hinn kantinn eru auðvitað þeir sem vel geta séð af fé og lagt fyrir sem njóta fyrirgreiðslu ríkisins. Það er verið að verðlauna þá með almannafé sem í ríkari mæli en ekki eru meðaltekju- og hátekjumenn fyrir að leggja fyrir. Það er verið að borga þeim fyrir að leggja fyrir sem geta auðveldlega gert það.