143. löggjafarþing — 90. fundur,  2. apr. 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[19:08]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Við ræðum nú fyrri helminginn af skuldahöfuðstólsleiðréttinganiðurfærsluskattafsláttarpakka hæstv. ríkisstjórnar, það sem við getum kallað XD-hluta, sjálfstæðishlutann af loforðinu þar sem meiningin er að menn geti lækkað höfuðstól verðtryggðra húsnæðislána sinna og/eða borgað inn á sparnaðarreikning til að fjárfesta í íbúð. Þá borga menn að vísu sinn eigin sparnað beint í það dæmi en þó ekki nema að hluta til þegar betur er að gáð. Óbeint er það ríkið sem fjármagnar þessa aðgerð að verulegu leyti, ríki og sveitarfélög. Það er fyrst og fremst í gegnum afslátt af væntum skatttekjum þessara aðila í framtíðinni borið saman við að menn hefðu sparað í hinu venjulega kerfi.

Ef við lítum örlítið á aðgerðirnar í heild upplifðu flestir þær þannig að lækkunin yrði mun meiri og þýðir ekki fyrir stjórnarliða og Framsóknarflokkinn sérstaklega að bera það endalaust af sér. Nógu marga vinnustaðafundina og fundina fór ég á þar sem ég stóð í því að reyna að svara t.d. spurningum um það hvaða áhrif það hefði á ríkissjóð ef fara ætti í lækkun upp á 240–300 milljarða. Það voru spurningarnar. Þannig upplifðu kjósendur þetta. Og menn veltu sumir fyrir sér, þeir sem voru hugsandi, að kannski væri gott að nota eitthvað af þeim peningum, jafnvel þó þeir kæmu frá útlendum hrægömmum, í að borga niður skuldir eða gera eitthvað annað.

Herra forseti. Af hverju er þetta orðið hér í höndunum á okkur að 72 milljarða lækkun höfuðstóls hjá sumum heimilum í landinu á næstu fjórum árum? Að heimild til að taka allt að 70 milljarða af séreignarsparnaði viðkomandi sem menn borga auðvitað sjálfir og afsala sér þá þeim lífeyrissparnaði síðar. Og í þriðja lagi að verulegu tekjutapi ríkissjóðs og sveitarfélaga í framtíðinni á kostnað skattgreiðenda þeirra tíma og/eða minna svigrúms til að veita opinbera þjónustu. Þetta eru helstu drættirnir í málinu í heild.

Félagslega er það þannig, hvað sem sjálfstæðismenn segja um prósentu, að skattafslættirnir nýtast mönnum í ríkara mæli eftir því sem launin eru hærri. Það er þannig í krónum talið. Það er ekki hægt að mótmæla því að framlag af hálfu ríkisins í krónum talið til að lækka höfuðstólinn er einfaldlega meira eftir því sem launin eru hærri upp að þakinu. Og til að geta nýtt sér þessar ívilnanir til fulls þurfa menn að vera með 700–800 þús. kr. í laun á mánuði í fjölskyldutekjur.

Í öðru lagi er þessi pýramídi líka félagslega á hvolfi vegna þess að það gefur auga leið og þarf ekkert nema lágmarks heilbrigða skynsemi til að sjá að möguleikar fjölskyldnanna til þess að taka allt í einu til hliðar 4% af launum sínum eru háðir því hver launin eru og hver afkoman er og hvort menn ná endum saman. Þó svo að menn hafi borgað eitthvað í skatt af þeim launum sem þeir hafa fengið útborgað að undanförnu og notuðu ekki til að byggja upp séreignarsparnað af því að þeir höfðu ekki efni á því er það líka tengt í þrepaskiptu skattkerfi og með persónuafslætti því hvað menn hafa í laun. Og það kemur þeim mun minni hvati inn í þetta sem launin eru lægri og fólk er komið nær skattleysismörkunum eða borgar tekjur í lágþrepi. Þannig er það. Það er alveg ljóst að hellingur af tekjulágum fjölskyldum í landinu klýfur það ekki að fá minna í vasann á hverjum mánuði, hversu freistandi sem það er að hoppa á þessa gulrót Sjálfstæðisflokksins um skattafslátt.

Mér eru ríkisfjármálin hugleiknust í þessu og af því að tími minn er naumur ætla ég aðallega að horfa á ríkisfjármáladæmi þessu tengt og lái mér hver sem er í ljósi lífsreynslu minnar undanfarin fimm ár. Tekjutap ríkis og sveitarfélaga vegna þeirrar aðgerðar sem við erum að tala um hér — ég er ekki að tala um hinn hlutann, 80 milljarðana sem menn ætla að fjármagna með bankaskatti, sem er auðvitað skattur eins og hver annar skattur, kemur bara inn í kassann hjá hæstv. fjármálaráðherra og krónurnar eru alveg eins og krónurnar sem koma inn fyrir virðisaukaskatt eða eitthvað slíkt. Nei, ég er að tala um það að samkvæmt frekar ófullkomnum gögnum sem fylgja frumvarpinu og frekar opinni kostnaðarumsögn, enda annað erfitt, er þetta í grófum dráttum þannig: Ef við tökum sviðsmynd 1 er tekjutap sveitarfélaganna, á verðlagi ársins 2014, 9–12 milljarðar kr. framvirtir og tekjutap ríkisins 18–25 milljarðar kr. Við þetta bætist um 6,9 milljarða kr. tekjutap ríkisins á næstu fjórum árum vegna minni skatttekna sem leiða af auknum séreignarsparnaði og 3,4 milljarða kr. tekjutap sveitarfélaga af sömu ástæðum. Þessar tölur þarf að skoða saman ef við ætlum að fá niðurstöðu og botn í heildarmyndina. En þetta segir ekki alla söguna. Þetta er kostnaðurinn reiknaður af nafnfjárhæðum tekjutapsins eins og þær standa núna og eru á þessum fjórum árum en ekki af ávöxtuðum séreignarsparnaði í framtíðinni ef það hefði orðið raunin.

Hvað eigum við að gefa okkur? Hvað þurfum við að bæta miklu við til að áætla gróft tekjutap ríkis og sveitarfélaga, bæði vegna skammtímaáhrifa og langtímaáhrifa í formi afsals á framtíðartekjum? Gefum okkur bara ríflega ávöxtun á þessu, 40%, raunávöxtun upp á kannski 3,5% á 15–20 ára líftíma þessa séreignarsparnaðar sem þarna ætti í hlut. Þá eru menn að tala um býsna háar tölur. Þá gætu bæst við hjá sveitarfélögunum ekki 12 heldur kannski 16 milljarðar og ekki 25 heldur 35 milljarðar hjá ríkinu, að viðbættum 3,4 milljörðum hjá sveitarfélögunum og 6,9 milljörðum hjá ríkinu í skammtímaáhrif. Þá erum við komin í um 20 milljarða í heild hjá sveitarfélögunum og 42 milljarða í heild hjá ríkinu.

Auðvitað er þetta gróft dæmi en það er ekki langt frá því sem gæti orðið niðurstaðan. Við værum að tala um framtíðarafsal á tekjum plús skammtímaáhrif af þessari stærðargráðu. Það munar um minna en þetta. Ég geri ekki ráð fyrir að sveitarfélögin muni taka það í mál að fá ekki þessar upplýsingar upp á borðið og ekki ég heldur.

Ég veit vel að vinum mínum á kostnaðarskrifstofunni er vandi á höndum að meta svo óljósar aðgerðir og svona marga lausa enda og það þarf að gefa sér ýmsar forsendur. En það er glórulaust ábyrgðarleysi annað en að gera kröfu til þess að tvennt liggi algerlega skýrt fyrir áður en þessar aðgerðir fara af stað. Það er í fyrsta lagi vandaðar félagslegar, félagsefnahagslegar greiningar á því hvernig þetta kemur út fyrir einstaka tekjuhópa, aldurshópa og aðra í samfélaginu. Menn geta ekki leyft sér svona ráðstöfun opinberra fjármuna öðruvísi en það liggi fyrir þannig að hægt sé að svara spurningum um jafnræði og sanngirni í þessum efnum. Og hitt verður að liggja fyrir; vönduð greining á langtímaríkisfjármálaáhrifum aðgerðarinnar vegna þess að hér er verið að senda stóran reikning inn í framtíðina.

Það var oft spurt að því fyrst eftir hrunið hvort við ættum bara ekki að auðvelda okkur leikinn með því að skutla einhverjum hluta af vandanum inn í framtíðina. Menn voru með hugmyndir um að seilast í lífeyrissjóðina og taka út skatttekjurnar sem þar bíða geymdar og ýmsar aðrar hugmyndir voru uppi um skemmri skírn í því að takast á við þennan vanda. Ég sagði alltaf nei, ekki á meðan ég stend hér, vegna þess að það vorum við sem kynslóð sem brugðumst og ollum þessu hruni. Við skulum gera svo vel og takast á við það sjálf en ekki senda börnum okkar og barnabörnum reikninginn. Nákvæmlega það sama á við hér, herra forseti og hæstv. fjármálaráðherra. Við verðum að skoða stöðuna eins og hún lítur út í þessu samhengi eftir 15–25, 40 ár. Vegna hvers? Meðal annars vegna þess að við erum hér að glíma við lífeyriskerfið líka. Við erum að fara inn í það með þessa aðgerð og taka framtíðarskatttekjur ríkis og sveitarfélaga sem ættu að koma til í vaxandi mæli eftir 15–25 ár.

Það er um það bil, ef ég man þessa tölu rétt, um 35 þúsund manns á eftirlaunaaldri á Íslandi í dag. Eftirlaunahlutfallið svokallaða liggur einhvers staðar þar. Í kringum árið 2030 verða það 50–55 þúsund manns og á árunum 2050–2060 verða 90 þúsund Íslendingar á eftirlaunaaldri. Það er mun hærra hlutfall þjóðarinnar en nú er og þó lágt í alþjóðlegum samanburði. Það er um það bil þá sem ríkið og sveitarfélög munu finna mest fyrir þessu tekjutapi. Það vill svo til að á árunum 2050–2070 verða börnin mín vonandi ef allt gengur vel að fara á eftirlaun hvert á fætur öðru. Ég ætla ekki að skrifa upp á eitthvert glóruleysi í ríkisfjármálum og ráðstöfun opinberra skattfjármuna ef það á bersýnilega að verða til þess að stórskerða lífskjör þeirra. Nóg er samt. Við eigum ógreiddar stórar fjárhæðir í B-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins og það er reyndar halli á A-deildinni líka. Þetta byrjar að koma inn af auknum þunga á sömu árum ef við förum ekki að leggja fyrir fjárhæðir á allra næstu árum. Það er þannig. Ég mun ekki standa að neins konar afgreiðslu á þessu máli nema ég telji að sómasamlega sé um það búið að þessu leyti, fyrir utan mjög margar spurningar sem enn er ósvarað um útfærslu aðgerðarinnar og hvernig hún kemur niður.

Ég vil þó segja um þetta mál sem slíkt að einn þáttur þess er að mínu mati sýnu jákvæðari en annað. Hann er sá að opna leið fyrir ungt fólk sérstaklega eða þá sem ekki hafa komið sér upp húsnæði enn þá til að leggja fyrir og fá jafnvel skattalegan stuðning til þess þannig að þeir eigi frekar fyrir því að borga út í íbúð einhvern tíma á næstu fimm árum. Ég er mun jákvæðari í garð þess og í raun og veru er það að mínu mati jákvæðasti hlutinn sem er undir í öllum þessum pakka. Það er sá möguleiki með aðferð af þessu tagi að tengja það annaðhvort við séreignarsparnað eða með einhvers konar öðru sparnaðarformi sem hvetur til þess og auðveldar mönnum að byggja upp sparnað til að komast yfir þröskuldinn og kaupa sína fyrstu íbúð. En auðvitað væri það áfram gert með þeim afleiðingum að fólk ráðstafar séreignarsparnaði sínum í það og/eða ríkið afsalar hluta af framtíðarskatttekjum til að gera það mögulegt.

Síðan má spyrja, ef við teljum að ríkið eða hið opinbera hafi fjárhæðir af þessu tagi, hvort sem við sækjum þangað fé að einhverju leyti með bankaskatti eða öðru og við gefum okkur að við ætlum okkur að hafa 15–25 milljarða til að aðstoða skuldug heimili og fólk í erfiðleikum á komandi árum, hvernig er skynsamlegast að gera það? Er það með öllu þessu bixi eða væri það kannski með því að stórhækka vaxtabætur og húsaleigubætur næstu fjögur ár og ná þannig utan um allan hópinn og greiða ríkulegar vaxtabætur með rýmri fjárhæðarmörkum og hærri húsaleigubætur til allra í tekjulægri hópunum næstu fjögur ár? Ég svara því hiklaust játandi. Við ættum þá að gera það.

Við ráðstöfuðum yfir 20 milljörðum á núvirði í vaxtabætur á árinu 2011. Menn töluðu náttúrlega um það sem ekki neitt en það munar um það, borið saman við 8,2 milljarða núna.

Að síðustu, herra forseti, verð ég eiginlega bara að biðjast afsökunar á einu. Ég er að hugsa um að nota þetta tækifæri til að biðjast afsökunar á því að hafa ekki talað miklu harðar gegn þessu rugli fyrir kosningarnar í vor. Mér finnst ég sekur um það, þótt ég hefði skíttapað á því fylgi, vegna þess að þetta var glórulaust og er það að hluta til enn þá. Og ég finn til ábyrgðar að hafa ekki staðið mig betur í þeim efnum af því að auðvitað var verið að ganga svoleiðis út yfir öll takmörk í glórulausum og ábyrgðarlausum loforðum að annað eins hefur aldrei sést á Íslandi. Eina heimsmetið sem hér kemur við sögu er heimsmet í óábyrgum kosningaloforðum. Og auðvitað berum við heilmikla ábyrgð, öll sem vorum með einhverju ráði og einhverri rænu í stjórnmálabaráttunni á Íslandi (Forseti hringir.) frá og með upp úr áramótum 2013 að taka ekki til harðari varna á móti slíkum hlutum.