143. löggjafarþing — 90. fundur,  2. apr. 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[19:40]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg rétt að menn áttu von á því að þátttakan í 110%-leiðinni yrði almennari. Það voru ýmsar ástæður fyrir því að ákveðnir hópar annaðhvort kusu að nýta sér hana ekki eða ýttust út úr henni. Menn vanmátu t.d. hvað margir sáu bara strax sjálfir að þeir væru það vel settir eignalega að þeir mundu fá lítið eða ekkert út úr þessari leið vegna þess að hún tók mið af því hvað menn áttu skuldlaust og skerðingarmörk miðuðu við það. Svo voru þökin upp á tekjutenginguna og þökin upp á 4 milljónir og 7 milljónir o.fl. Því miður fengu fæstir í lánsveðshópnum neitt út 110%-leiðinni af því að hin lánuðu veð stoppuðu það o.s.frv. Ýmislegt varð til þess að hópurinn grisjaðist dálítið meira í þeirri aðgerð en maður átti von á þegar fjöldinn var skoðaður, sem virtist vera yfirveðsettur samkvæmt gögnum.

Varðandi áhrif á fasteignamarkaðinn. Það er alveg hárrétt athugað hjá hv. þingmanni að það er ekki hægt að útiloka að þetta gæti leitt til einhverrar smábólumyndunar á fasteignamarkaði, t.d. missirið fyrir áramót 2019 ef þá væri talsvert fjölmennur hópur sem væri með talsverðan séreignarsparnað geymdan, uppsafnaðan, og þyrfti að ná sér í kaupsamning til þess að nýta sér útgreiðsluna, fá útgreiðsluna og eiga rétt á skattafslætti. Það þarf að huga að öllu slíku.

Síðan að lokum um þá sem eru á leigumarkaði og bara örstutt um hina almennu stöðu í húsnæðismálum. Ég held að vandinn sé sá að við þurfum að leita leiða sem búa til miklu meira jafnræði milli hinna fjölbreyttu valkosta í þessum efnum, sem henta hverjum og einum. Það eru þeir sem vilja vera á leigumarkaði, eru sæmilega tryggir þar, það eru húsnæðissamvinnufélög, það er búseturéttur og það eru kaup. (Forseti hringir.) Menn hafa t.d. verið að (Forseti hringir.) reyna að undirbúa að taka upp (Forseti hringir.) samræmdar húsnæðisbætur svo að mörkin milli (Forseti hringir.) húsaleigubóta og vaxtabóta hyrfu eða (Forseti hringir.) yrðu ekki eins skýr og þau eru í dag.