143. löggjafarþing — 102. fundur,  2. maí 2014.

framkvæmdarvald og stjórnsýsla ríkisins í héraði.

250. mál
[13:01]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held nefnilega að þessu svari að hluta til þær hugmyndir sem eru á bak við nefndarálit og afgreiðslu hv. allsherjar- og menntamálanefnd, þ.e. hæfnisnefndirnar sem eru takmarkaður hópur sem getur gert athugun á ákveðnum hlutum. En ég tek heils hugar undir með hv. þingmanni að auðvitað á að vera ljóst þegar maður sækir um hvaða upplýsingar þurfi að gefa og hvaða kröfur eru gerðar, þar með talið hvort skila eigi inn sakavottorði eða öðru slíku. Ég held að það sé miklu eðlilegra að gera kröfur um það.

Ég held að við sjáum í málum í kringum okkur og hér á Íslandi, þótt ekki sé búið að dæma í þeim eða úrskurða hvað hafi gerst, að þegar menn skoða skýrslur, hvort sem er innan lögreglunnar eða annars staðar, þetta hefur líka gerst innan heilbrigðisgeirans, er farið að skrá allar slíkar innkomur, þ.e. hver fer inn á skrána. Á hann erindi þangað? Það þurfa að vera skýrar reglur um hvað megi og hvað megi ekki svo að menn geti ekki leikið sér að því að skoða lögregluskýrslur. Það er býsna opinn aðgangur að því að vinna með mál inn á þessar skrár fyrir ákveðna starfshópa, en menn eiga ekki að geta sest við tölvuna og leikið sér að því að skoða fjölskyldu, vini og félaga eða þekktar persónur í kerfinu.

Þannig þarf kerfið að virka. Það þarf að gefa þau skilaboð að fylgst sé með því og að saknæmt sé að fara inn án þess að eiga þar sýnilegt erindi tengt við ákveðin mál og með tilteknum heimildum o.s.frv. Dæmi um þetta má finna í Danmörku í augnablikinu þar sem kemur í ljós að fjölmiðlar eru búnir að gera samninga um að fá útskrift af kreditkortayfirlitum til þess að geta betur aflað sé upplýsinga um hvernig ríka og fræga fólkið eða stjórnmálamennirnir ferðast og hvar og hverju þeir eyða peningum í og annað slíkt.

Þessi vernd er alltaf að verða erfiðari og erfiðari en hún krefst þess þá að við séum með skýrari markmið og reglur. Það hefur enginn vakið betur athygli á því í nefndinni en andmælandi hér, hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson, fulltrúi Pírata. Þetta þarf að skoða. Umræðan er gríðarlega mikilvæg og þörf.