143. löggjafarþing — 117. fundur,  16. maí 2014.

stjórn fiskveiða.

153. mál
[00:22]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil koma hér í lok umræðu um þessi tvö mál er snerta sjávarútveginn og þakka nefndinni fyrir góða vinnu. Ég þakka formanninum og öllum nefndarmönnum fyrir gott samstarf og þakka þá málefnalegu umræðu sem hefur átt sér stað hér í kvöld. Hið góða samstarf birtist í því að í öðru tilvikinu, í því frumvarpi sem við ræðum hér, er nefndin samstiga í að skila því af sér sameiginlega þó að vissulega séu þrír aðilar með fyrirvara á álitinu.

Ég held að við séum á réttri leið í að ná víðtækari skilningi á hagsmunum sjávarútvegsins á margan hátt, ég vona að svo sé. Það er líka alveg rétt að við eigum án efa eftir að takast á um ólíka nálgun og mismunandi leiðir er varða breytingar á stjórn fiskveiða á næsta þingi og um veiðigjöld þeim tengd.

Það stóð til að frumvörpin yrðu komin fram miklu fyrr í vetur en það varð niðurstaða mín að það mundi ekki nást í tíma. Þess vegna var sú leið farin að koma með veiðigjöldin, sem við kláruðum hér áðan, í bráðabirgðaákvæði til eins árs. Þó að þar hafi kannski verið sett af stað ákveðin hugsun sem hugsanlega mundi taka lengri tíma, þá er það seinni tíma umræða og ég get tekið undir að það sé út af fyrir sig allt í lagi, í það minnsta fyrir hönd ráðuneytisins og ráðherra.

Það er líka mikilvægt að við fáum tækifæri til að hafa aukið samráð, eins og kallað var eftir af einum hv. þingmanni, bæði við samfélagið allt en ekki síður hér innan þings við þingflokkana. Þess vegna gengur ein breytingartillaga í frumvarpinu út á að formgera það að hér verði samráðshópur sem allir fulltrúar þingflokka á Alþingi sitji í. Ég held að það sé hið besta mál. Við munum væntanlega strax á næstu vikum kalla slíkan hóp saman, og óska eftir tilnefningum frá þingflokkunum, til að fara yfir þetta til þess meðal annars að geta síðan klárað stærra samráð fyrri part sumars með það fyrir augum að við séum klár í umræðu um stærri breytingar til lengri tíma strax á haustdögum og höfum þá nægan tíma til að klára það næsta vetur.

Ég vil nefna það í sambandi við rækjuna, eins og kom fram í máli mínu og í frumvarpinu og reyndar einnig í ræðu formanns atvinnuveganefndar, að þetta er fordæmislaus afgreiðsla og ber ekki að túlka sem svo að hægt sé að byggja á því fordæmi, það er skilningur minn og ráðuneytisins.

Það er mikilvægt varðandi samráðið um stærra frumvarpið, sem við munum hefja nú strax eftir að þinginu lýkur, við munum gera það í framhaldinu, að sú þingsályktunartillaga sem nefndin kallar eftir er í því frumvarpi, og hefur svo sem komið fram í frumvarpi áður, og sýnir að menn nota það sem mönnum finnst gott og skynsamlegt. Þess vegna felli ég mig ágætlega við það, það er bara hluti af því sem við ætlum að gera í framhaldinu, hvað varðar þann hlut sem ekki fer til hlutdeildarhafanna inn á markaðnum, heldur það sem ríkið hefur eftir til félagslegra, byggðarlegra og atvinnulegrar uppbyggingar eða aðgerða; og ekki veitir nú af.

Fiskveiðistjórnarkerfið, kvótakerfið, hefur skilað gríðarlegri hagræðingu og þegar það var sett á var allt í skralli og kaldakoli. Við veiddum umtalsvert miklu meir en við veiðum nú, en töpuðum umtalsverðum fjármunum á því. Við fórum meira að segja niður í 1/3 af þorski, en höfðum samt umtalsvert meiri tekjur og þjóðhagslegan hagnað af sjávarútveginum vegna þess að þetta kerfi er gott. Ég hef nýlega verið í viðræðum við Norðmenn og ný ríkisstjórn í Noregi hyggst einmitt kynna sér sérstaklega hvernig við höldum á okkar spilum við stjórn fiskveiða, væntanlega með það fyrir augum að læra af því hvernig okkur hefur gengið og okkur hefur gengið býsna vel. Sú hagræðing hefur öll átt sér stað innan greinarinnar. Það hvarflaði ekki að neinum opinberum aðilum að koma að því. Þess vegna er kannski ekkert óeðlilegt að þeir aðilar sem þar starfa líti svo á að þeir eigi nú kannski rétt á að njóta ákveðinnar hlutdeildar í þeirri hagræðingu. Staðreyndin er sú að þjóðin hefur hagnast gríðarlega og langmest, hér hefur verið hagvöxtur umfram það sem ellegar hefði verið vegna þessa kerfis.

Það er hins vegar algjörlega augljóst mál að hagræðingin skilar sér í því að einhverjar aflaheimildir hverfa frá öðrum stöðum og ég tel að þær hefðu gert það undir öllum kringumstæðum nema menn ætluðu að halda áfram því kerfi sem var hér áður eða því kerfi sem við sjáum til að mynda í Noregi, að moka síðan peningum úr ríkissjóði til að viðhalda ósjálfbærum atvinnuvegi. Þess vegna er mikilvægt að sá hluti ríkisins sem við höfum í dag, sem eru allt að 3,5% af hverri fisktegund, sé nýttur á skynsamlegan hátt.

Ég er sannfærður um að við getum gert miklu betur í því en við höfum verið að gera á liðnum árum og tek því undir með bæði nefndinni og þeim þingmönnum sem hafa nefnt að þær breytingar sem hér er verið að gera margar hverjar, með því að auka sveigjanleika í kerfinu, séu til bóta. Það verður að vera þannig ef ríkisvaldið á að geta komið til aðstoðar við að byggja upp sjálfbæra atvinnugrein, sem á þessum minni stöðum er oft og tíðum ekkert annað en sjávarútvegur, verður það að hafa til þess nægar aflaheimildir. Við þurfum að ræða það í þaula hvort þessi 3,5%, sem ríkið hefur í dag, sé nægilegt eða hvort auka þurfi hlutfallið með einhverjum hætti. Við þurfum að fara vel yfir það.

Talandi um veiðigjöld og há veiðigjöld, þá þekki ég þá umræðu. Þegar þau voru lögð á hér upphaflega sögðu margir útgerðarmenn að þeir gætu eðlilega lagt meira á sig fyrstu eitt til tvö árin, meðal annars til þess að koma til móts við mjög erfiða stöðu ríkissjóðs til að bjarga mikilvægum velferðarmálum eða heilbrigðismálum, koma þeim áfram, en til lengdar yrðu slík gjöld að vera skynsamleg. Margir hafa kallað þetta landsbyggðarskatt. Það verður auðvitað öfugsnúið ef við í þessum aðgerðum okkar, í byggðarlegu og félagslegu tilliti, séum að deila út gæðum en tökum síðan með hinni hendinni miklu stærri hlut frá þessum landshlutum og færum í ríkissjóð. Þetta verður líka að spila saman þannig að ég held að við séum hér á réttri leið.

Sá sveigjanleiki sem við erum að fara í með því að nýta skiptimarkaðinn á annan hátt og með heimildum ráðherrans til að fara yfir þetta og grípa til þeirra aðgerða sem til þarf; ég held að það sé mikilvægt. Ég er sannfærður um að það er góð leið að færa aflaheimildir í auknum mæli til Byggðastofnunar, sem er sú stofnun sem bregst við, kemur inn, hjálpar, tekur ákveðnar vinnureglur inn í myndina, auglýsir eftir þeim sem vilja vinna með þeim og starfar með heimamönnum til að byggja upp sjálfbæran atvinnuveg; það er mjög mikilvægt. Við skulum horfast í augu við að matvælaframleiðsla eins og sjávarútvegur er gríðarlega stór samkeppnisatvinnugrein á heimsmarkaði.

Alveg sama hvernig allt hefði verið og hvaða kerfi við hefðum þá hefðu litlar fiskvinnslur alltaf þurft að berjast í bökkum, hefðu alltaf átt erfitt og yrðu sennilega oft gjaldþrota, nema þær finni sér sjálfar sérstaka hillu á þessum stóra bás. Við viljum hafa fjölbreytileikann og við eigum að hjálpa til við það. Það er eðlilegt að ríkisvaldið noti þær heimildir sem það hefur til þess. En um leið megum við ekki leggja það miklar fjárhagslegar byrðar, sem við drögum inn í ríkissjóð, á þau fyrirtæki svo að við sögum lappirnar undan jafnharðan og við byggjum upp. Þetta verður allt saman að hanga saman.

Við erum held ég á réttri leið eins og ég sagði áðan. Ég vil í lok þessarar umræðu enn og aftur þakka nefndinni fyrir þessa vinnu og gott samstarf. Ég hlakka til að eiga þetta samráð við þingflokkana og þá sem við þurfum að reyna að ná saman við til að viðhalda málefnalegri umræðu, skynsamlegri, og ná því meginmarkmiði, sem ég hef lagt ríka áherslu á frá því að ég varð ráðherra í þessum málaflokki, að ná víðtækari sátt um þessa mikilvægu atvinnugrein okkar Íslendinga.