143. löggjafarþing — 118. fundur,  16. maí 2014.

gjaldskrárlækkanir o.fl.

315. mál
[10:16]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta efh.- og viðskn. (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Vandinn við útfærsluna á lækkun komugjalda í heilsugæslu er að útfærsla þeirrar heimildar í lögum er á þann veg að ráðherra skal setja gjaldskrá og hann hefur um það frjálst val. Auðvitað væri hægt að setja inn ákvæði og binda þá heimild við það að ekki mætti fara umfram verðbólgumarkmið eða eitthvað slíkt, en ég taldi býsna langt gengið að koma með breytingartillögu til að afnema eða takmarka sérstaklega það svigrúm. Þar kemur einfaldlega að því að framkvæmdarvaldið hefur svigrúm samkvæmt gildandi rétti til þess að leggja álögur á borgarana og flókið að takmarka það að öllu leyti. Við ráðum ekki alltaf við einbeittan brotavilja stjórnvalda gagnvart almenningi í landinu.

Á hinn kantinn má segja að þessi útfærsla, þótt gölluð sé, hafi að minnsta kosti þau áhrif með hækkuninni að meiri líkur séu á verðlagsáhrifin í vísitölu komi fram, sérstaklega vegna þess að 1% lækkunin á til dæmis bensín og olíu, eldsneytið, er ekki sérlega líkleg að koma fram. Það eru þó aðeins meiri líkur á því ef hækkunin er meiri. Það er tryggt að áfengis- og tóbakslækkunin kemur fram í vísitölu. Það hefur jákvæð verðlagsáhrif sem eru hluti af framlaginu til kjarasamninga.

Ríkisstjórnarmeirihlutinn lagði upp með að velja þessi gjöld og þá finnst mér í öllu falli líka hægt að réttlæta það að breytingartillagan víkki ekki það svið. Við skulum fallast á það með stjórnarmeirihlutanum að þetta séu gjöldin sem mögulegt er að lækka.

Þá hefur líka stjórnarmeirihlutinn enga afsökun fyrir því að efna ekki fyrirheitið sem gefið var 21. desember. Hún verður að samþykkja þessa breytingartillögu.