143. löggjafarþing — 118. fundur,  16. maí 2014.

lokafjárlög 2012.

377. mál
[10:22]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Vigdís Hauksdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um frumvarp til lokafjárlaga fyrir árið 2012. Undir nefndarálitið skrifar meiri hluti fjárlaganefndar sem í eru auk mín hv. þingmenn Guðlaugur Þór Þórðarson, Haraldur Benediktsson, Karl Garðarsson og Valgerður Gunnarsdóttir.

Nefndin kallaði til sín fulltrúa fjármála- og efnahagsráðuneytisins til að fara yfir frumvarpið, en tilgangur þess er að staðfesta ríkisreikning ársins 2012. Með frumvarpinu eru lagðar fyrir Alþingi niðurstöður um afgangsheimildir og umframgjöld í rekstri ríkissjóðs árið 2012. Í frumvarpinu eru tvær lagagreinar. Annars vegar er sótt um breytingar á fjárheimildum vegna frávika á ríkistekjum stofnana, þ.e. frávika á uppgjöri ríkisreiknings 2012 og áætlunar fjárlaga og fjáraukalaga fyrir viðkomandi tekjulið. Hins vegar eru gerðar tillögur um niðurfellingar á stöðu fjárheimilda í árslok 2012.

Þær stofnanir sem gerð er tillaga um að létta sérstökum rekstrarhalla af eru Landspítalinn, heilsugæslan á höfuðborgarsvæðinu og lögreglustjórinn á Suðurnesjum. Meiri hlutinn telur að niðurfellingar af þessu tagi séu mjög vandmeðfarnar. Ávallt er hætta á því að þær skapi fordæmi sem til lengri tíma getur dregið úr aga í ríkisrekstri.

Lagt er til að fjármála- og efnahagsráðuneytið gefi út formlegar reglur um niðurfellingar rekstrarhalla og kynni þær innan stjórnsýslunnar áður en kemur að úrvinnslu frumvarps til lokafjárlaga 2013.

Á tveimur fjárlagaliðum kom fram misræmi milli frumvarpsins og ríkisreikningsins, fjárlagaliðunum Flugvellir og flugleiðsöguþjónusta og Fjármálaeftirlitið. Meiri hlutinn telur þetta misræmi óviðunandi og gerir þá kröfu til ráðuneytisins og Fjársýslu ríkisins að fyrir úrvinnslu ríkisreiknings 2013 og lokafjárlaga sama árs verði þetta leiðrétt og ekki verði munur á útkomu ríkisins eftir því hvort ríkisreikningur eða frumvarp til lokafjárlaga er lagt til grundvallar.

Meiri hluti fjárlaganefndar leggur því til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.