143. löggjafarþing — 123. fundur,  18. júní 2014.

frestun verkfallsaðgerða Flugvirkjafélags Íslands gegn Icelandair.

616. mál
[15:19]
Horfa

innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Eins og tilefni þessa fundar er mæli ég hér fyrir frumvarpi til laga um frestun verkfallsaðgerða Flugvirkjafélags Íslands gegn Icelandair. Ég held að það komi engum á óvart í þessum sal að fyrir ráðherra, ríkisstjórn og Alþingi allt er næsta óviðunandi að þurfa að fjalla um þessi mál og koma ítrekað að vinnudeilum á frjálsum markaði á þann hátt sem of oft hefur gerst að undanförnu.

Eins og kunnugt er hófust verkfallsaðgerðir Flugvirkjafélags Íslands gegn Icelandair þann 16. júní sl. með tímabundinni vinnustöðvun sem stóð í 24 tíma og verður aðgerðunum að óbreyttu fram haldið á morgun með ótímabundinni vinnustöðvun.

Eins og þingheimur þekkir var kjaradeilu félagsins við Samtök atvinnulífsins, sem fara með samningsumboð fyrir hönd Icelandair, vísað til ríkissáttasemjara þann 19. apríl sl. Lítið sem ekkert hefur áunnist í þeim viðræðum, því miður. Fundir hafa verið haldnir reglulega en viðræðum var slitið í gær.

Áður en ég geri nánar grein fyrir efni frumvarpsins og þeim afleiðingum sem fyrrnefnt verkfall mundi hafa vil ég nota tækifærið hér til að fjalla aðeins um þessi mál almennt og setja þau í samhengi. Þetta er nefnilega í þriðja sinn á þessu ári sem Alþingi neyðist til að grípa inn í kjarabaráttu einstakra stéttarfélaga við atvinnurekendur. Eins og ég hef áður sagt er það algjört neyðarúrræði þegar slíkt gerist. Inngrip af þessu tagi hlýtur að vera og er alltaf síðasti kostur og kemur einungis til álita þegar miklir almanna- og þjóðhagslegir hagsmunir eru undir.

Sú staða sem upp er komin er að mínu mati með öllu óviðunandi og ég hvet þingheim allan til að íhuga það að við veltum því fyrir okkur í sameiningu. Hér eru hins vegar undir miklir almanna- og þjóðhagslegir hagsmunir sem eru ástæðan fyrir því að önnur leið var ekki talin fær en að koma að málinu á þann hátt sem hér er gert.

Ég vil fyrst nefna að samkvæmt lögum er ráðherra heimilt að setja bráðabirgðalög og mörg fordæmi eru fyrir því að það hafi verið gert þegar kemur að verkföllum sem talin eru skaða almannaheill eða hafa áhrif á stöðu samfélagsins í heild sinni.

Ég lýsti því hins vegar yfir úr þessum ræðustól þegar við ræddum síðast aðgerðir af sama toga að ef sú staða kæmi aftur upp, sem allur þingheimur áttaði sig á að gæti gerst vegna yfirvofandi verkfalla nokkurra starfsstétta, mundi ég bera það undir þingið og óska eftir að þing yrði kallað saman áður en slík ákvörðun yrði tekin. Við það var að sjálfsögðu staðið og þess vegna erum við saman komin hér í dag.

Mér þykir einlæglega miður að þannig skyldi hafa farið, eins og ég held að okkur öllum líði með þetta mál. Mér þykir mjög miður að samningsaðilar hafi ekki náð að klára málin sín á milli og axlað þá ábyrgð sem hvílir bæði á atvinnurekendum og launþegum við að leita lausna og klára málin.

Þess vegna vildi ég í upphafi velta því upp að við sem sitjum hér ræðum með opnum huga hvernig við getum gert ákveðnar breytingar á löggjöfinni í landinu þannig að síður þurfi að koma til þess að stjórnvöld grípi inn í með þeim hætti sem nú er gert. Til að koma í veg fyrir allan misskilning er ég ekki að tala um neinar grundvallarbreytingar á stöðu þessara mála í samfélaginu, ég er miklu frekar að tala um að við finnum leiðir til að fjölga þeim kostum sem við höfum við lausn kjaradeilna þannig að síður þurfi að koma til kasta þingsins.

Til dæmis mætti nefna þátt sem ég hef áður nefnt úr þessum ræðustól, að auka heimildir ríkissáttasemjara til að fresta verkfallsaðgerðum tímabundið ef hann telur að lausn sé í sjónmáli. Slíkar heimildir er að finna í regluverki nágrannalanda okkar. Ég hef þegar rætt þetta við aðra ráðherra í ríkisstjórn og þá sérstaklega félags- og húsnæðismálaráðherra, enda heyrir ríkissáttasemjari undir ráðuneyti hennar, og ég hef líka rætt málið í ríkisstjórn en ég skora á alla þingmenn að taka málið til umræðu og að við veltum fyrir okkur hvernig við getum til framtíðar komið málinu í annan farveg.

Það er óviðunandi og sérkennileg staða, staða sem hlýtur að vekja okkur öll til umhugsunar, að hér er þjóðþingið saman komið til að fara í aðgerðir til að fresta verkfallsaðgerðum einnar starfsstéttar sem starfar hjá einu félagi í landinu. Það er að mínu mati merki um að hlutina verður að vinna öðruvísi.

Þrátt fyrir að ríkisstjórnin hafi tekið þá ákvörðun að blanda sér í málið á þann hátt sem nú er gert vil ég líka árétta, vegna umræðu sem hefur skapast, að ríkisstjórnin á að sjálfsögðu enga aðild að málinu, ríkisstjórnin tekur ekki afstöðu til málsins eða með eða á móti deiluaðilum. Við erum einungis að taka afstöðu með almenningi í landinu og tryggja að samfélagið geti nýtt þau tækifæri sem felast í góðum samgöngum til og frá landinu. Þau tækifæri felast í uppbyggingu ferðamála sem við bindum miklar vonir við og það má ekki gerast, sem gerist í þessari stöðu, að þjóðarbúið og ein atvinnugrein verði af minnst 900 millj. kr. á hverjum degi sem svona verkfall stendur. Auðvitað er tapið mest á þessum árstíma þegar aflýsa þyrfti í kringum 60 flugferðum sem áhrif hefði á minnst 12 þús. einstaklinga á hverjum einasta degi. Það er staðan sem við stöndum frammi fyrir og það er sú samfélagslega ábyrgð sem Alþingi þarf að axla, að vega og meta þessa hagsmuni. Að þessu sinni var það mat þannig að ekki yrði setið hjá en ég ítreka að ég harma þá niðurstöðu.

Ég vík þá að einstökum efnisatriðum frumvarpsins og ástæðu þess að frumvarpið er flutt hér í dag. Ég þarf ekki að endurtaka það sem ég hef áður sagt og þingheimur þekkir, að þegar flugferðum var frestað vegna vinnustöðvunar flugvirkja 16. júní sl. felldi Icelandair niður 53 ferðir sem hafði áhrif á 12 þús. farþega. Reiknað er með sambærilegum og jafnvel erfiðari aðgerðum og áhrifum ef til ótímabundins verkfalls kæmi. Allar þessar aðgerðir hafa mikil áhrif á flugsamgöngur hingað til lands og þær hafa ekki bara áhrif, eins og umræðan hefur verið, á starfsemi ferðaþjónustunnar. Það eru ekki einungis ferðaþjónustufyrirtækin, aðilar í ferðaþjónustu víða um land, sem standa frammi fyrir mikilli vá ef til slíks verkfalls kæmi heldur hefur það líka áhrif á almenna efnahagsþróun í landinu. Ég hef heyrt víða að hér sé einungis um eitt félag að ræða, sem er alveg hárrétt, en mörg önnur félög fljúga til og frá landinu og við megum ekki gleyma þeirri staðreynd að á þessum árstíma er hlutdeild Icelandair í flugi til og frá landinu rúmlega 70%. Það er sú staða sem við búum við í landinu, um 65% í fólksflutningum til og frá landinu og um 90% í vöruflutningum. Þetta eru þau hlutföll sem við búum við í þessum veruleika og það er auðvitað nokkuð sem við verðum að velta fyrir okkur.

Á síðasta ári aflaði ferðaþjónustan um 274 milljarða í gjaldeyristekjur sem er nokkru meira en sem nam gjaldeyristekjum af sjávarútvegi. Ferðamönnum hefur haldið áfram að fjölga það sem af er þessu ári og er það mat Ferðamálastofu að fjölgunin sé um 35% miðað við sama tímabil 2013. Ég sagði það áðan en get sagt þá tölu aftur að ferðaþjónustan hefur reiknað það út að á hverjum degi verkfallsaðgerða glatist um 900 millj. kr. sem hefði auðvitað áhrif á afkomu einstaklinga, fyrirtækja og samfélagsins alls. Hér er mikið undir og að mörgu ber að huga. Eins og þingheimur þekkir líka er ferðaþjónustan eðlilega viðkvæm fyrir truflunum í samgöngum, hún er alveg einstaklega viðkvæm. Það umfang ferðaþjónustu sem við búum við í dag er svo einstakt í íslensku samfélagi, og nýtt vegna þess hversu hraður vöxturinn er, að það er erfiðara fyrir þessa atvinnugrein en margar aðrar að laga sig að þeim miklu breytingum sem verkfall af þessu tagi þýddi.

Eins og ég sagði áðan hefðu aðgerðir Flugvirkjafélags Íslands einnig mjög neikvæð áhrif á vöruflutninga til og frá landinu, þá sérstaklega á íslenskan sjávarútveg. Langstærsti hluti ferskfisks er fluttur með flugvélum Icelandair, bæði með frakt- og farþegaflugvélum. Við þekkjum það sem hér erum að það er viðkvæm vara og erfitt fyrir Ísland að byggja upp orðspor ef hlutirnir fara þannig að ekki er hægt að treysta á öryggi slíkra flutninga. Svo eru auðvitað heildaráhrifin fyrir landið okkar allt saman. Við erum öll að reyna að byggja upp íslenskt samfélag og það þekkir fyrrverandi ríkisstjórn jafn vel og núverandi ríkisstjórn. Við erum að reyna að tryggja hér tryggar stoðir til hagvaxtar og lífsgæða. Við reynum að spyrna okkur á betri stað og til þess að svo verði má lítið út af bregða og því er mikilvægt að við náum að vinna hlutina vel. Það eru miklir hagsmunir í húfi fyrir íslenskt samfélag eins og öllum má ljóst vera og til þessara aðgerða þarf því miður að grípa.

Virðulegur forseti. Ég geri ráð fyrir að menn rýni vel það frumvarp sem hér er lagt fram, en til upplýsingar fyrir þingheim er farin leið sem líka var farin í tengslum við flugmennina á sínum tíma, sú leið að gefa viðsemjendum enn og aftur tækifæri til að leysa úr ágreiningi sínum fyrir tilsettan tíma, ella verði kjaradeilan lögð fyrir gerðardóm. Frumvarp þetta tekur jafnframt mið af þeim breytingum sem hv. umhverfis- og samgöngunefnd gerði á sambærilegu frumvarpi um lögbann á verkfallsaðgerðir flugmanna hvað varðar þá tímalengd sem viðsemjendum er gefin. Til að stuðla að aukinni sátt um ákvörðun gerðardóms er í frumvarpi þessu farin sú leið að fulltrúar launþega og vinnuveitenda tilnefna sinn fulltrúa hvor í gerðardóminn og jafnframt er gerð rík krafa til hlutleysis þeirra og sérþekkingar.

Líkt og fyrri gerðardómurinn sem skipaður var skal þessi skipaður þremur fulltrúum, einum tilnefndum af Hæstarétti Íslands, einum af Flugvirkjafélagi Íslands og einum af Samtökum atvinnulífsins. Gerðardómur skal í ákvörðun sinni hafa til hliðsjónar kjarasamninga sem gerðir hafa verið á almennum vinnumarkaði á undanförnum mánuðum, að því leyti sem við á, og almenna þróun kjaramála auk þess að taka mið af sérstöðu þeirra stéttarfélaga sem tilgreind eru í 1. gr. frumvarpsins.

Virðulegur forseti. Að endingu ítreka ég þá skoðun mína og bjargföstu trú að farsælasta leiðin í svona málum sé alltaf sú að þau séu leyst án aðkomu Alþingis og að deiluaðilar nái samningum sín á milli. Það er ekki og á aldrei að vera sjálfsagt mál að ríkisvaldið grípi inn í kjaradeilu með þessum hætti og síst þegar einkafyrirtæki á í hlut.

Það eru alltaf þung skref fyrir alla að þurfa að mæla fyrir slíku frumvarpi. Réttur fólks til að grípa til sameiginlegra aðgerða til að knýja á um kjarabætur er verndaður af 74. gr. stjórnarskrárinnar auk þess sem Ísland er aðili að alþjóðlegum samningum sem vernda sömu réttindi. Við vitum líka öll að réttindum fylgir ábyrgð og að réttindi sæta takmörkunum vegna hagsmuna annarra. Til að forða því að tefla í hættu mikilvægum gjaldeyristekjum sem þjóðarbúinu eru nauðsynlegar til að standa undir skuldbindingum og halda áfram þeim efnahagsbata sem náðst hefur þarf Alþingi nú að grípa inn í þessa deilu með lagasetningu.

Af öllu ofangreindu er ljóst að ríkir almannahagsmunir eru í húfi og sú skylda hvílir á okkar herðum að vinna úr því og fresta umræddum verkfallsaðgerðum. Inngrip Alþingis er því nauðsynlegt til að tryggja þá hagsmuni sem hér eru undir, bæði þjóðfélagslega og efnahagslega.

Að endingu þakka ég þeim sem hafa komið að undirbúningi þessa máls. Ég þakka einnig fulltrúum stjórnarandstöðunnar en ég upplýsti þá um það hvernig ég hygðist halda á málinu þegar ljóst var að í þetta stefndi. Ég held líka að það sé mikilvægt fyrir okkur, Alþingi, löggjafarsamkomuna, að minna okkur á að kannski er sá tími liðinn að bráðabirgðalög séu sett við skrifborðið í einhverju ráðuneyti, að þingið sé frekar kallað saman. Ég tel miklu betri brag á því og vonast til að við höldum áfram á þeirri leið að kalla þing saman ef til slíkra aðgerða þarf að grípa enda eru þær þess eðlis og það alvarlegar að það er mikilvægt að Alþingi komi allt að þeim.

Virðulegi forseti. Með þessum orðum legg ég til að frumvarpinu verði vísað til umræðu og afgreiðslu hjá hv. umhverfis- og samgöngunefnd.