144. löggjafarþing — 13. fundur,  25. sept. 2014.

veitingastaðir, gististaðir og skemmtanahald.

158. mál
[16:48]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 85/2007, um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald, á þskj. 163, mál nr. 158.

Frumvarpið er samið í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu í þeim tilgangi að tryggja að ákvæði reglugerðar um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald standist grundvallarkröfu stjórnskipunarréttar um lagastoð. Breytingin sem lögð er til varðar hæfi og kröfur sem gerðar eru til dyravarða á veitinga- og skemmtistöðum samkvæmt 2. mgr. 6. gr. laga nr. 85/2007, um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald, en þar segir að nánar skuli kveða á um skyldur til dyravörslu og framkvæmd námskeiða í reglugerð. Ákvæði 18. gr. reglugerðar nr. 585/2007, um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald, kveður hins vegar á um fortakslausar kröfur sem gera skal til umsækjanda um leyfi til að verða dyravörður. Annars vegar er um að ræða kröfu um 20 ára aldurstakmark og hins vegar kröfu um að umsækjandi hafi ekki gerst sekur um ofbeldis- eða fíkniefnabrot.

Það er því mat mitt að ákvæði áðurnefndrar 6. gr. laga um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald veiti ekki nægilega stoð fyrir svo fortakslausum skilyrðum í reglugerð. Ég tel eðlilegt að gera ákveðnar kröfur til umsækjanda um leyfi til að starfa sem dyravörður hvað varðar ofbeldis- og fíkniefnabrot en tel þó rétt að takmarka tímabilið við fimm ár, þ.e. að gera þá kröfu að viðkomandi hafi ekki gerst sekur um ofbeldis- eða fíkniefnabrot á grundvelli almennra hegningarlaga á síðustu fimm árum. Skilyrði þetta skal túlka þannig að umsækjandi hafi ekki hlotið dóm eða gengist undir greiðslu sektar vegna ofbeldis- og fíkniefnabrota á grundvelli laganna. Ákvæði 18. gr. fyrrnefndrar reglugerðar gerir ekki ráð fyrir fimm ára takmörkuninni en unnið hefur verið eftir slíkri takmörkun af hálfu lögreglunnar sem veitir leyfi til dyravörslu.

Þá þykir einnig eðlilegt að miða við að dyravörður skuli hafa náð 20 ára aldri, enda gegna þeir mikilvægu hlutverki við að gæta að öryggi gesta á veitinga- og gististöðum. Í frumvarpinu er því lagt til að við 2. mgr. 6. gr. bætist við þau skilyrði sem áður eru nefnd.

Með þessari breytingu er stoðum skotið undir ákvæði núgildandi reglugerðar svo tryggt sé samræmi við ákvæði 75. gr. stjórnarskrárinnar um atvinnuréttindi þegnanna. Þannig munu nú koma fram í lagaákvæðinu þau takmörk og umfang réttindaskerðingar sem nauðsynleg eru talin í þessu samhengi.

Hæstv. forseti. Að lokinni þessari umræðu legg ég til að frumvarpinu verði vísað til hv. atvinnuveganefndar til umfjöllunar.