144. löggjafarþing — 19. fundur,  15. okt. 2014.

takmarkað aðgengi að framhaldsskólum.

[15:38]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að taka sérstaka umræðu í dag um takmarkað aðgengi að framhaldsskólum sem boðað er í fjárlagafrumvarpi ársins 2015. Hæstv. ráðherra hefur væntanlega orðið var við þá óánægju sem víða hefur komið fram með þau áform að fækka nemendum í framhaldsskólum í fullu námi um 916 og enn fleiri ef einstaklingar eru taldir. Það er tæplega 5% fækkun ársnemenda. Til að setja þessa fjöldatakmörkun í samhengi er þetta álíka og neita öllum nemendum Fjölbrautaskóla Suðurnesja um skólavist og segja upp 90 til 100 starfsmönnum í kjölfarið.

Fyrirhuguð fækkun framhaldsskólanemenda mun dreifast um allt land og það mun fækkun starfsmanna að sjálfsögðu einnig gera. Þetta mun fyrst og fremst bitna á nemendum sem vilja fara á bóknámsbrautir og eru eldri en 25 ára. Samkvæmt fjárlagafrumvarpinu eru þetta um 1.600 einstaklingar sem ekki eru þó allir í fullu námi.

Í frumvarpinu stendur að þessi takmörkun á aðgengi að skólunum muni spara fjármagn sem muni aftur nýtast til að mæta m.a. hækkunum vegna kjarasamninga kennara. Meðalaldur nemenda er hæstur í verknámsskólum og skólum sem sinna fjarkennslu og meðalaldur í skólum sem starfa á landsbyggðinni er hærri en skólanna á höfuðborgarsvæðinu. Ef menntastefna hæstv. ríkisstjórnar nær fram að ganga mun ársnemendum í Fjölbrautaskóla Snæfellinga fækka um rúm 18%. Í Menntaskólanum á Tröllaskaga mun nemendum fækka um 17%, í Menntaskólanum á Egilsstöðum mun fækka um tæp 16% og í Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra um tæp 12%. Það er ekki neitt smáræði sem hér um ræðir. Fjölbrautaskólinn í Ármúla hefur bæði sinnt eldri nemendum af höfuðborgarsvæðinu og einnig utan af landi með fjarkennslu. Þar fækkar nemendum um 12,2%.

Nú berast fréttir af því að möguleiki fullorðinna á höfuðborgarsvæðinu til að sinna námi til stúdentsprófs með vinnu verður ekki lengur til staðar með lokun öldungadeildar Menntaskólans við Hamrahlíð. Slíkar skyndiákvarðanir á ekki að taka í menntamálum. Huga þarf að afleiðingum slíkra aðgerða á einstaklinga, menntunarstig þjóðarinnar, aðgengi að menntun úti á landsbyggðinni, þróun byggðar, hagvöxt og hagsæld. Skólarnir verða að mæta þessum breytingum á nemendafjölda með því að segja upp starfsfólki og væntanlega fækka námsbrautum, en þeir þyrftu í raun aukið fjármagn ættu þeir að mæta menntunarþörfinni í nærsamfélaginu og vera færir um að standa undir fjölbreyttu námsframboði.

Með áformum ríkisstjórnarinnar um fjöldatakmarkanir mun rekstraraðstaða framhaldsskóla úti á landi versna til muna og námsframboð mun þar væntanlega einnig verða einhæfara. Rannsóknir sýna að gott aðgengi að námi skiptir miklu máli ef hækka á menntunarstig þjóðar.

Hæstv. menntamálaráðherra ferðast nú um landið og heldur erindi um mikilvægi læsis og menntunar fyrir hagvöxt og hagsæld í landinu. Á sama tíma skerðir hæstv. ráðherra aðgengi að menntun sem mun koma harðast niður á ungu fólki á landsbyggðinni. Því er í staðinn boðið að flytja búferlum og fara í einkaskóla á Suðurnesjum eða í Borgarfirði með ærnum tilkostnaði. Það vantar að vísu fjármagn í þá skóla til að taka við nemendunum þannig að engin leið virðist vera fyrir 25 ára bóknámsnemanda til að ná sér í menntun á framhaldsskólastigi. Fólk mun hreinlega ekki sætta sig við slíkt.

Það helsta sem aðgreinir okkar framhaldsskólakerfi frá nágrannalöndunum er nám í framhaldsskóla er lengra hér á landi og brottfall er hér meira. Sumir vilja halda því fram að einn sterkur áhrifavaldur brottfalls sé einmitt lengra nám en almennt gerist í öðrum löndum. Sá möguleiki að koma aftur í skóla með auknum þroska og reynslu, hvort sem brottfallið stafaði af fjárskorti, barneignum eða námsleiða, hefur staðið til boða. Að geta lokið námi þótt seint sé skiptir miklu máli fyrir einstaklingana og framtíðarmöguleika þeirra, en einnig fyrir menntunarstig þjóðarinnar sem hefur aftur jákvæð áhrif á hagvöxt og almenna hagsæld. Þær umdeilanlegu fjöldatakmarkanir sem boðaðar eru takmarka sveigjanleika framhaldsskólakerfisins sem til þessa hefur verið helstu kostur þess.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra um greiningar sem hljóta að liggja undir svona mikilli stefnubreytingu í menntamálum og niðurstöðu þeirra greininga: Hver eru áhrif fækkunar ársnemenda á rekstur framhaldsskólanna? Hver eru áhrif fækkunar ársnemenda á menntunarstig á landsbyggðinni og aðgengi að menntun á framhaldsskólastigi? Hvað má búast við að samfélagslegur kostnaður verði mikill þegar aðgengi að framhaldsskólum er takmarkað eins og boðað er?