144. löggjafarþing — 32. fundur,  13. nóv. 2014.

fjarvera forsætisráðherra í umræðu um skuldaleiðréttingu.

[14:33]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Það kom fram hjá hæstv. forseta fyrr hér í dag að þær skýringar hefðu fengist hjá forsætisráðuneytinu á því að forsætisráðherra virti ekki það samkomulag sem gert var á fundi formanna þingflokka og var hér við umræðu um sitt eigið mál, að hann hefði þurft að fara á brýnan fund sem ekki hefði legið fyrir þegar ákveðið var að fara í þessa umræðu.

Í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins var hins vegar sagt að ástæðan fyrir þessu hefði verið fundur forustumanna ríkisstjórnarinnar með Alþýðusambandinu. Þetta fer ekki alveg saman því að sá fundur hefur legið fyrir í mánuð. Um þann fund voru þingflokksformenn upplýstir, við vissum að forsætisráðherra þyrfti að fara úr húsinu rétt fyrir kl. 17 og sömuleiðis Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra. En forsætisráðherra fór úr þingsalnum rétt fyrir kl. 16 og var farinn úr þinghúsinu kl. 16.00, ólíkt Bjarna Benediktssyni fjármálaráðherra sem þurfti að fara á sama fund en virti þingið þess að halda samkomulag af fundi formanna þingflokka og vera hér við ræður talsmanna stjórnmálaflokkanna við umræðu um stærsta mál kjörtímabilsins. (Forseti hringir.)

Nú ber vel í veiði því að hæstv. forsætisráðherra er í húsinu og ég bið um að fá skýringar á þessu.