144. löggjafarþing — 46. fundur,  11. des. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[14:11]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tók sérstaklega fram að ekki eigi að framlengja auðlegðarskatt og það er það sem ég gagnrýndi. Þegar hann var settur á á sínum tíma var vissulega talað um að hafa hann til skamms tíma og þess vegna er hann að fara að falla úr gildi, ef svo má segja. Ég tel hins vegar að hann eigi að framlengja. Framkvæmd hans má vel endurskoða og sníða af honum einhverja agnúa, en ég tel hins vegar að prinsippið á bak við auðlegðarskattinn standi. Það er í algjöru samræmi við það hvernig ég tel að hér eigi að reka samfélag sem er í grófum dráttum að fólk leggur til eftir getu og uppsker eftir þörfum. Svo einfalt er það. Samkvæmt því sjónarmiði á að sjálfsögðu að framlengja og hafa hér áfram auðlegðarskatt vegna þess að þar eru breiðu bökin sem geta lagt til samfélagsins.

Varðandi læsið er alveg rétt að mjög mikið af því sem við lesum er á internetinu en læsið byrjar hins vegar miklu fyrr, áður en börn byrja sjálf að lesa, t.d. þegar foreldrar lesa fyrir börn og það held ég að sé ekki gert í gegnum internetið heldur í gegnum myndabækur sem eru dýrari í framleiðslu en bækur sem eru bara texti. Ég held að það sé mjög mikilvægt að foreldrar hafi ráð á að (Forseti hringir.) kaupa góðar barnabækur fyrir börnin sín til að kenna þeim læsi frá upphafi.