144. löggjafarþing — 46. fundur,  11. des. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[14:25]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Já, einhvern veginn þurfum við að fjármagna aukinn kostnað í heilbrigðiskerfinu vegna aukinnar tíðni sjúkdóma sem meðal annars má rekja til neyslu á óhollum mat, þar á meðal sykruðum matvælum. Því ekki að nota til þess að minnsta kosti hluta af þeim sköttum sem þarna koma inn? Ef við legðum háan skatt á sykur kæmi hann auðvitað inn í samneysluna sem heild og hægt að ráðstafa honum með ýmsum hætti en ég mundi halda að líkt og með allt annað sem kemur inn í samneysluna gæti hluti af því eðlilega farið inn í heilbrigðisþjónustuna alveg eins og hverjir aðrir skattar sem innheimtir eru.

Ég er ekki að tala fyrir einhvers konar nefskatti á sykur eða eitthvað þannig en auðvitað er samspil þarna á milli. Við þurfum einhvern veginn að fá inn fjármagn til að ráða við að reka heilbrigðiskerfið.