144. löggjafarþing — 47. fundur,  12. des. 2014.

umdæmi lögreglunnar á Höfn.

[10:39]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. Víkur nú sögunni til Hornafjarðar. Lögreglan á Hornafirði og sveitarstjórnarmenn á Suðurlandi höfðu gert ráð fyrir að lögreglan á Hornafirði mundi færast frá Austurlandi og til Suðurlands, að ég hygg um áramótin, en nú brá svo við að á síðasta degi sínum í embætti dómsmálaráðherra ákvað hæstv. forsætisráðherra að gefa út reglugerð þar sem Hornafjörður er áfram á Austurlandi hvað þetta varðar og plön sem hafði verið unnið að um að flytja lögregluna á Hornafirði undir Suðurland eru núna í uppnámi. Það virðist ekkert samráð hafa verið haft við nokkurn mann í þessu máli. Viðbrögð sveitarstjórnarmanna og annarra á Hornafirði og víðar hafa staðfest það. Hér hafði hins vegar verið unnið að áætlunum í víðtæku samráði. Úr ranni hæstv. þáverandi dómsmálaráðherra og núverandi forsætisráðherra komu þær útskýringar þó að haft hefði verið samband við heimamenn, en þegar það var nánar skoðað voru það einhverjir aðrir heimamenn, það voru ekki heimamenn á Hornafirði, heldur heimamenn annars staðar á landinu sem hann hafði samráð við.

Mig langar að fá þetta á hreint. Við hvern var haft samráð í aðdraganda þessarar reglugerðar? Við hvaða fólk var talað? Embættismenn úr ráðuneytinu sem hafa komið fyrir þingnefnd vita ekki einu sinni forsendur reglugerðarinnar og eru að geta sér til um hana. Hæstv. forsætisráðherra, þáverandi dómsmálaráðherra, virðist vera sá eini sem veit forsendurnar. Getur hann upplýst þingheim um þær? Getur hann upplýst þingheim um það við hverja hann talaði áður en (Forseti hringir.) reglugerðin var gefin út?