144. löggjafarþing — 48. fundur,  12. des. 2014.

tekjustofnar sveitarfélaga.

366. mál
[17:18]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Já, ég hef nú notað ákaflega hófstillt orð, en ef hv. þingmaður vill færa umræðuna upp á annað plan þá get ég líka alveg tekið stærra upp í mig. Hv. þingmaður þaggar ekkert niður í mér með því einu saman að þingmaður úr mínum flokki standi að þessu nefndaráliti. Ég hef mínar sjálfstæðu skoðanir hvað það varðar og þarf ekki að biðja neinn afsökunar á því og engan leyfis í þeim efnum. Málið hefur ekki verið ákveðið sem eitthvert flokkspólitískt mál af því tagi, fyrir utan það að ég tók það skýrt fram að ég væri ekki endilega með heita sannfæringu eða uppgerðan hug í því ef ég persónulega mætti ráða hvernig væri skynsamlegast eða sanngjarnast að ráðstafa þessum fjármunum. Ég vek athygli á því að í lögbundnu samráði ríkis og sveitarfélaga er komin niðurstaða og það fyrir nokkru síðan, geri ég ráð fyrir. Nú stendur þannig á í árinu að sveitarfélögin eru um það bil að loka fjárhagsáætlunum sínum. Ég geri ráð fyrir að það séu fjárhæðir af því tagi að þær telji í reikningum einstakra sveitarfélaga og menn hafi þá væntanlega verið upplýstir um það í gegnum fulltrúa sína á vettvangi Sambands íslenskra sveitarfélaga og gert ráð fyrir tilteknum niðurstöðum í þessu máli. Auðvitað vita menn að það er óvissa í því þangað til Alþingi hefur afgreitt mál af þessu tagi en engu að síður er staðan einfaldlega sú að mörg sveitarfélög eru nú á lokametrunum við að loka fjárhagsáætlunum sínum og það er eðlilegt að menn vilji hafa einhvern skýrleika uppi í þeim efnum.

Auðvitað er löggjafar- og fjárlaga- og fjárstjórnarvaldið hér á Alþingi, hv. þingmaður þarf ekki að kenna mér það, ég hef setið hérna í alveg nógu mörg ár til þess að vita það. Hann þarf heldur ekkert að halda yfir mér ræður um að þetta snúist um að leggjast ekki kylliflatur fyrir sveitarfélögunum eða einhverjum aðilum úti í bæ ef hann … (HöskÞ: Það sagði ég ekki) Ég er að tala um að leggjast kylliflatur fyrir einhverjum aðilum úti í bæ, það var sagt hér í stólnum áðan í síðustu ræðu. Ef hv. þingmaður vill kalla Samband íslenskra sveitarfélaga einhvern aðila úti í bæ þá má (HöskÞ: Nei, það sagði ég ekki.) hann það mín vegna. (HöskÞ: Það sagði ég ekki.) Við skulum bara lesa ræðurnar þegar þær koma úr prentun.

Ég minni bara á það að sveitarfélögin í landinu eru auðvitað ekki bara hver sem er þegar kemur að samskiptum við ríkisvaldið. Við höfum búið um það þannig að þessi stjórnsýslustig eigi að umgangast hvert annað með tilteknum hætti og ákveðinni virðingu. Það eigi til dæmis alltaf að kostnaðarmeta breytingar af þessu tagi og hvernig þær koma út fyrir sveitarfélögin. Það hefur verið gert í þessu máli, samanber frumvarpið. Síðan hafa þessir aðilar með sér lögskipaðan samráðsvettvang, sem sveitarfélögin, að minnsta kosti hér á árum áður, kvörtuðu nú oft undan að væri ekki nægjanlega virkjaður og virtur, Jónsmessunefndin og það fyrirkomulag. Þar hefur verið fjallað um þetta mál. Það hefur verið leitt til lykta í samkomulagi ríkis og sveitarfélaga á tiltekinn hátt. Það er það sem hér er verið að leggja til við okkur í nefndinni að hafa að engu, að ýta til hliðar. Ég þarf rök fyrir því áður en ég fellst á slíka afgreiðslu.

Virðulegur forseti. Ég ætla svo sem ekkert að lengja þessa umræðu en ég vona svo sannarlega að málið gangi aftur til nefndar á milli 2. og 3. umr. Ég óska eftir því, hafi ekki verið beðið um það, að málið fari aftur til nefndar milli 2. og 3. umr. til dæmis þannig að sveitarfélögin fái færi á því að ræða aftur við nefndina. Þau sátu yfir þessu máli í dag og sendu okkur þá samþykkt sem ég vitnaði til hér áðan. Mér finnst það því algjört lágmark, að nefndin komi aftur saman og fjalli um málið milli umræðna.