144. löggjafarþing — 55. fundur,  22. jan. 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[17:29]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta eru vangaveltur mínar.

Ég hjó eftir því að hv. þingmaður vísaði til breytinga í 10. gr. um upplýsingalög. Þá talaði hann sérstaklega um það sem kallað var skýrsla lögreglunnar um búsáhaldabyltinguna, sem er náttúrlega undarleg samantekt og varla boðlegt að nota orðið „skýrsla“ um það plagg. Hv. þingmaður vísaði til þess að þar væri getið nafna og talað um samskipti stjórnvalda við almenning. Ég er honum innilega sammála um það. En ég skil greinina ekki þannig að hún eigi um við um lögregluyfirvöld, heldur eigi hún við stjórnsýsluna, við Stjórnarráðið og að halda beri skrá um samskipti stjórnvalda við almenning, ég ekki að tala um lögregluyfirvöld. Það var eitt af því sem kom í ljós í skýrslu rannsóknarnefndar og í uppgjörinu eftir hrunið að menn vissu ekkert um hvað ráðamenn höfðu verið að fjalla um sín á milli og ekki um samskipti við einhverja aðila úti í bæ, hvort það væri almenningur eða lögaðilar sem kallað er.

Ef skýrt væri að þetta ætti ekki við um skráningu hjá lögreglunni, mundi þá viðhorf hv. þingmanns til þessarar greinar eitthvað breytast?