144. löggjafarþing — 55. fundur,  22. jan. 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[17:37]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Við ræðum um frumvarp til laga um breytingu á lögum um Stjórnarráð Íslands. Hér er verið að gera þó nokkrar breytingar. Margar þeirra líta nú ekki út fyrir að vera stórar en eru það engu að síður þegar maður fer að skoða hvað þær fjalla um og les textann og skýringartextann með þeim, en líka kannski ekki síst í ljósi þess umhverfis sem við búum við þegar núverandi stjórnvöld eiga í hlut.

Við höfum séð skrýtna hluti gerast í dag. Við sáum í fyrsta lagi ákvörðun tekna um að sniðganga löggjöf sem hefur verið samþykkt um rammaáætlun og fara einhverja allt aðra leið í því að taka ákvarðanir um það hvernig við ætlum að flokka virkjunarkosti. Við höfum séð í dag að menn eru tilbúnir að ganga ansi langt, þeir eru tilbúnir að brjóta samkomulag, þeir eru tilbúnir að gera þingkonur sínar að ómerkingum hvað samkomulag varðar til að ná 67% hlut í Ríkisútvarpinu. Og við höfum líka séð, virðulegi forseti, undanfarið að ríkisstjórnin tekur bara oft alls konar ákvarðanir án þess að ígrunda þær og hún tekur líka oft alls konar ákvarðanir af því henni finnst þær réttar, án þess að nokkur fagleg merking eða fagleg vinna búi þar að baki. Það er það sem maður óttast mjög þegar kemur að þessu frumvarpi, t.d. heimildin sem verið er að sækjast eftir í 1. gr., þar sem segir að ráðherra kveði á um aðsetur stofnunar sem undir hann heyrir, nema á annan veg sé mælt í lögum.

Þarna skulum við aðeins staldra við og horfa yfir farinn veg ríkisstjórnarinnar og spyrja okkur hvort þetta sé ráðlegt. Þegar hæstv. forsætisráðherra, sem leggur þetta mál fram, gegndi embætti dómsmálaráðherra nýverið, þá tók hann ákvörðun þvert gegn allri stefnumótun, þvert gegn allri ákvörðunartöku sem margir höfðu komið að, um að lögreglustjórinn á Höfn í Hornafirði skyldi tilheyra Austurlandi, þrátt fyrir að menn væru búnir að vinna að því lengi, vinna að því vel og faglega, að lögreglustjórinn mundi tilheyra Suðurlandi. Þetta var ákvörðun sem var bara tekin inni á skrifstofu og algjörlega úr tengslum við allt sem á undan var gengið. Þá vildi svo heppilega til, þrátt fyrir að ekki væri til formlegur öryggisventill sem gerði kleift að breyta þessari ákvörðun, að nýsettur innanríkisráðherra sem var skipaður í embættið, hæstv. innanríkisráðherra Ólöf Nordal, sneri ákvörðuninni við. Þannig að þetta var heppni. Það var heppni að þessu var breytt, bara út af tímasetningum.

Virðulegi forseti. Þetta sýnir manni svolítið í hvaða umhverfi menn eru tilbúnir að taka ákvarðanir.

Næsta dæmi sem ég vil nefna er flutningur Fiskistofu. Ef þessi grein verður samþykkt er hún í raun grundvöllur þess að flutningur Fiskistofu mun geta farið fram. Finnst einhverjum að þar séu faglegar ákvarðanir að baki? Ég hef ekki heyrt nokkurn einasta aðila sem hefur fjallað um þann flutning frá Hafnarfirði til Akureyrar eins og hann hefur verið kynntur segja það, ekki einn einasta. Ég hef reynt að hlusta vel eftir því hvaða greiningar búi að baki, greiningar á því hvar beri að staðsetja stofnunina þannig að þjónusta hennar nýtist sem best um land allt. Ég hef hvergi séð neitt slíkt. Ég hef hvergi séð neina skýrslu eða stefnumótunarvinnu eða annað sem felur í sér þá niðurstöðu að flytja beri þá starfsemi sem Fiskistofa sinnir sem allra, allra fyrst með manni og mús norður í land, það sé svo mikilvægt að flytja hana norður og þess vegna sé hægt að henda allri þeirri vinnslu og þekkingu sem þar er innan dyra, bara til að flytja stofnunina norður í land. Ég hef aldrei séð neina greiningar á þessu, en það eru nefnilega engar greiningar. Það er engin fagleg ákvörðun þarna að baki. Það eina sem býr þarna að baki er pólitískur hentugleiki. Og pólitískur hentugleiki, þegar ráðherrar ætla að slá keilur með ákvörðun sinni og virða þannig að vettugi faglegar forsendur mála, er ekki góður grundvöllur ákvarðanatöku. Þessi grein býður upp á það. Hún opnar algjörlega upp á gátt heimildir til ráðherra til að taka svona hentugleikaákvarðanir og gerir ekki neina kröfu um að að baki þeim búi faglegar forsendur eða athuganir á því hvar best sé að staðsetja stofnunina.

Ég er fylgjandi því að hið opinbera reyni að dreifa stofnunum og starfsemi sinni sem mest um allt land. Ég er ekki fylgjandi því að menn geri það eins og hér hefur verið kynnt, að ein stofnun sé tekin án faglegrar athugunar á því hvar best sé að staðsetja hana, stofnun sé tekin upp með þeim hætti að menn sjái fyrir sér að loka þar starfseminni og segi við starfsmennina: Þið komið með eða þið eruð búnir að missa störf ykkar. Annað var ekki í boði. Þetta eru ekki fagleg vinnubrögð, virðulegi forseti, og það er ekki svona sem við eigum að reyna að dreifa starfsemi hins opinbera um landið. Við eigum að gera það með allt öðrum hætti.

Eitt dálítið áhugavert dæmi sem mér finnst að ríkisstjórnin hefði mátt horfa til í þessu sambandi er hvernig Umhverfisstofnun gerir þetta. Starfsemi Umhverfisstofnunar er þannig að hún er með skrifstofur á nokkrum stöðum á landinu og býður starfsmönnum sínum að starfa hvar sem er á þessum skrifstofum. Einhverja svona leið hefði verið hægt að fara með Fiskistofu og er hægt að fara með fleiri stofnanir. Það er hægt að efla þjónustu um landið með öðrum hætti en þeim að stilla mönnum upp við vegg og taka heila stofnun og flytja hana og missa alla þá reynslu og þekkingu sem þar er inni. Það er hægt að gera þetta á svo margvíslegan hátt. Það er líka hægt að taka ákvörðun um það, pólitíska ákvörðun, að nýráðningar skuli fara fram með þeim hætti að þær efli starfsemina á landsbyggðinni. Það er hægt. Það er hægt að gera þetta á svo margan hátt, miklu mannúðlegri og eðlilegri hátt en hér hefur verið lagt til. Flumbrugangurinn og þetta viðhorf, „ég á þetta, ég má þetta, við ráðum þessu“, fer illa með starfsemi hins opinbera.

Það eru fleiri dæmi sem ég get nefnt. Ég ætla samt ekkert að standa hér og búa til einhvern syndalista fyrir þessa ríkisstjórn, þótt ég gæti örugglega notað annað korter í það. Ég vil biðja menn um að hugsa þetta upp á nýtt og spyrja sig: Hvernig tryggjum við að sú verðmæta reynsla sem felst í hverjum einasta starfsmanni hjá Fiskistofu tapist ekki, hvernig höldum við henni og hvernig getum við á sama tíma tekið ákvörðun um að hið opinbera efli starfsemi sína um land allt? Það þarf ekki að gera það með því að loka höfuðstöðvum Fiskistofu í Hafnarfirði og flytja hana norður. Það er hægt að gera það á svo margan annan hátt.

Ég ætla að taka annað dæmi. Ég er búin að nefna dæmi um Umhverfisstofnun. Það má gera einhvers konar frekari skilyrðingu þannig að þegar menn taka ákvörðun um að efla starfsemi á ákveðnum stað sé það tekið fram þegar ráðist er í nýráðningar. Það er líka annað dæmi sem mig langar að nefna. Við reyndum þetta einu sinni þegar ég var í iðnaðarráðuneytinu og horfðum til þess að hér var einu sinni samþykkt utanumhald um störf án staðsetningar. Við ákváðum að ráða starfsmann í ferðamálin en vegna þess að það var niðurskurður á þeim tíma, og iðnaðarráðuneytið tók sitt högg af því aldeilis hressilega, fengum við starfsmann til okkar á aðalskrifstofuna úr einni af okkar stofnunum. Besti starfsmaðurinn í verkið var starfsmaður úti á landi, á Ísafirði nánar tiltekið, sem var engu að síður starfsmaður ráðuneytisins. Og það gekk bara ljómandi vel upp. Þannig að ég ætla að hvetja hæstv. forsætisráðherra til að ræða það við ráðherra sína að dusta rykið af tillögum um störf án staðsetningar og spýta kannski dálítið í hvað það varðar að ráða starfsmenn sem eru staðsettir annars staðar en í Reykjavík. Nútímatækni býður svo sannarlega upp á að starfsmenn séu staðsettir annars staðar en á höfuðborgarsvæðinu.

Virðulegi forseti. Ég ætla líka að nefna annan þátt í frumvarpinu en það er 8. gr., um túlkun siðareglna. Mér finnst ekki eðlilegt að forsætisráðuneytið sé stjórnvöldum til ráðgjafar um túlkun siðareglna. Það hefur ekkert með það að gera að ég treysti ekki því fólki sem er innan forsætisráðuneytisins, ekki neitt. Það hefur allt með það að gera að þegar svona viðkvæmt málefni á í hlut eins og siðareglur skiptir svo miklu máli að þær séu trúverðugar og það þarf að dreifa aðkomunni að því hvernig þær eru túlkaðar og hvernig menn gefa ráð um þær. Það er stutt síðan að hæstv. forsætisráðherra hafði ekki hugmynd um hvort einhverjar siðareglur væru til eða ekki. En ég er ánægð með að menn hafa að minnsta kosti tekið utan um það mál og ákveðið að halda áfram því verkefni sem síðasta ríkisstjórn hóf, sem var að setja ráðherrum siðareglur og Stjórnarráðinu og öllu saman, af því að það skiptir máli. Í nútímasamfélagi er gerð krafa um að menn viti með hvaða hætti við ætlum að starfa, með hvaða hætti stjórnsýslan tekur ákvarðanir og hvernig með því er fylgst. Þess vegna finnst manni skipta gríðarlega miklu máli að hæstv. forsætisráðherra hafi sér til fulltingis fleiri aðila, ekki bara sjálfan sig. Þessi hópur verði breikkaður að nýju og það verði frekar gert eins og er í núgildandi lögum að nefnd fari með þau málefni. Annars er hætt við því að ef upp kemur ágreiningur eða upp koma stór mál að siðareglurnar verði látnar í léttu rúmi liggja. Það viljum við ekki og ég geri ekki ráð fyrir því að það sé ætlun forsætisráðherra. Ég geri ráð fyrir því að það sem vaki kannski fyrir honum sé helst að einfalda kerfið og utanumhaldið, en það má ekki einfalda það þannig að menn hætti að treysta því. Þannig að ég ætla að fá að leggja það til að menn endurskoði þetta og breikki þann hóp sem er stjórnvöldum til ráðgjafar um túlkun siðareglnanna og fræðir um þær innan Stjórnarráðsins.

Virðulegi forseti. Ég tel að þær breytingar sem gerðar voru 2011 þegar löggjöfin var upphaflega sett hafi verið til góðs. Ég er ánægð með það að hér taka menn ekki ákvörðun um að henda því sem þá var gert, þrátt fyrir að það sé orðið munstur hjá þessari ríkisstjórn. Bara af því að vinstri stjórnin vonda ákvað eitthvað þá virðist vera lenskan í ansi mörgum málum að menn ætli að henda því og ýta því til hliðar eða gera eitthvað allt annað án þess að skoða það í grunninn. En það er það ekki gert hér. Það er jákvætt og við hljótum að fagna því að menn ætla að halda áfram að starfa á þeim grunni, í grófum dráttum.

Ég kemst ekki yfir að fara yfir fleiri atriði, það eru fleiri atriði sem menn þyrftu að skoða, en þessi tvö tel ég gríðarlega mikilvæg. Ég held að við þurfum öryggisventil þegar ákveðið er hvar stofnanir eiga að vera staðsettar til að koma í veg fyrir að tekin sé skyndiákvörðun um það í einhverjum pólitískum skollaleik eins og oft vill verða eða hrossakaupum eins og stundum er talað um hér. Sá öryggisventill á að vera Alþingi, þ.e. að hér sé tekin endanleg ákvörðun um það hvert stofnanir fara og þá getum við kallað eftir faglegum grundvelli ákvarðanatökunnar og farið yfir hann hér. Síðan eru það siðareglurnar. Ég vona að hæstv. forsætisráðherra taki vel í það sem ég hef sagt um að það gæti miklu frekar styrkt stöðu ráðuneytisins í þeirri vinnu að vera með fleiri sér til fulltingis þannig að siðareglurnar verði trúverðugar og við getum horft á ný vinnubrögð í stjórnsýslunni þar sem við erum með siðareglur sem fólk treystir almennt og að stjórnsýslan öll þekki siðareglurnar vel.