144. löggjafarþing — 55. fundur,  22. jan. 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[18:18]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka spurninguna. Þarna kom hv. þingmaður einmitt með orðið sem mig vantaði. Ég var að bögglast með þetta og talaði um útibú, sem okkur úti á landi er meinilla við vegna þess að útibúunum er alltaf lokað, en umboðsmaður hins opinbera, það er eitthvað þannig sem við erum að tala um.

Ég rakti áðan nokkur dæmi sem ég man eftir frá Akureyri á síðasta ári, þar sem störf hafa flust suður í einhverjum tilfellum og ef einhver hefur hætt hefur ekki verið ráðið í hans stað. Það er sérstaklega áhyggjuefni varðandi Hafrannsóknastofnun sem er ekki síður og jafnvel mikilvægari stofnun en Fiskistofa vegna samstarfs og samvinnu við Háskólann á Akureyri. Þar er auðlindadeild, sú eina á landinu, og þar skipta bæði Matís og Hafrannsóknastofnun miklu máli, þar var þessi rannsóknarþáttur og þetta studdi hvort annað. Og Fiskistofa er auðvitað með útibú á Akureyri nú í dag.

Það sem ég hefði frekar viljað sjá var að sagt hefði verið: Við ætlum að leggja meiri áherslu á Fiskistofu á Akureyri. Þeir sem verða ráðnir inn nú á næstu árum verða ráðnir inn á Akureyri. Ég veit alveg hvernig það er ef það eru störf í boði, fólk vill sem betur fer flytja út á land þannig að með tíð og tíma er hægt að auka vægi útibúsins á Akureyri, hvort sem það er gert að höfuðstöðvum eða ekki, það er ekki heilagt í mínum huga þótt það sé auðvitað hræðsla við útibú þar sem þeim er alltaf lokað. Það er við okkur stjórnmálamennina að sakast, að við skulum ekki veita stofunum meiri festu en þetta.

Kannski má segja að þetta hafi orðið til þess að við ræddum málið og tókum umræðuna um flutning opinberra stofnana. Mér finnst enn allt mjög óljóst varðandi Fiskistofu. Það er verið að fresta þessu. Ég vil að menn segi: Við skulum gera þetta almennilega. (Forseti hringir.) Hættum við núna. Tökum sex ára plan á þetta. Mér fyndist flott ef ráðherra hefðu manndóm í sér til að gera það.