144. löggjafarþing — 55. fundur,  22. jan. 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[18:22]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fór að leita að gögnum af því að mig langaði að sjá hvernig hefði verið unnið í þessum málum síðastliðin 10 ár, hvort stjórnvöld hefðu verið með einhverja stefnu í málaflokknum „störf á landsbyggðinni“. Ég fann alveg ótrúlega lítið. Verkefni Störf án staðsetningar er auðvitað mjög gott en það er ekki mikið til á prenti eða blaði um þau mál. Það finnst mér svolítið merkilegt. Það segir manni eiginlega að gerum þetta nokkuð tilviljanakennt og eftir hendinni. Þess vegna held ég að þetta mál væri kjörið í þverpólitíska vinnu, sem ég mundi gjarnan taka þátt í.

Annað sem ég hef upplifað og er svolítið óþægilegt er að það fer oft eftir viðhorfi forstöðumanna hvort störf á landsbyggðinni haldast hjá útibúum þar eða ekki. Ég hef heyrt að hjá sumum stofnunum séu menn mjög áfram um að halda störfum úti á landi en hjá öðrum stofnunum sé það þannig ef einhver hættir að næst er ráðið í Reykjavík og svo smátt og smátt leggst útibúið af. Það er ekki gott.

En ég er mjög spennt fyrir því sem ég ætla héðan í frá að kalla umboðsmann ríkisins. Ég hef upplifað það sjálf að vera of sein að ná í kort hjá Sjúkratryggingum. Af því að ég bjó úti á landi þurfti ég að bíða í sjö til tíu daga eftir að fá það sent. Sá sem býr í Reykjavík keyrir upp í Sjúkratryggingar, gengur inn og fær kortið afhent á þremur mínútum. Þetta er mismunun sem mér finnst ekki í lagi. Ég er ekki að gera kröfu um að til sé plastprentaravél á öllum stöðum en þetta er dæmi um mismunun, þótt dæmið sé ekki alvarlegt, sem mér finnst ólíðandi. Ég á að geta farið á fund (Forseti hringir.) einhvers umboðsmanns á Akureyri(Forseti hringir.) sem leysir úr mínum málum.