144. löggjafarþing — 55. fundur,  22. jan. 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[18:55]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir það, það eru örugglega of margar eftirlitsnefndir og þeim má örugglega fækka. Ég er sammála því að það getur verið réttmætt. Hugsanlega á það líka við um einhverjar stjórnsýslustofnanir. Ég er því ekki að segja að þetta sé alrangt frekar en hv. þingmaður.

Það sem vakti athygli mína er að ráðuneytin eru svo smá. Það var eitt af því sem tekið var til greina af hálfu síðustu ríkisstjórnar og þess vegna voru ráðuneytin stækkuð og reynt að efla þau. En hér er búið að breyta því af núverandi ríkisstjórn og samt sem áður er það notað sem rökstuðningur til þess meðal annars að búa til stjórnsýslustofnanir. Mér finnst það dálítið sérkennilegt.

Það er annað sem mig langar að spyrja hv. þingmann um, það er þetta með tilfærslu starfsfólks, aukinn hreyfanleika starfsmanna. Ég held að ég hafi heyrt hv. þingmann koma inn á það að hún væri því sammála, ef ég hef heyrt rétt. Ég hef ákveðnar efasemdir. Mér finnst nokkur atriði sem hér eru nefnd skipta máli. Það er hægt að færa störf á milli ráðuneyta og á milli stofnana ríkisins og það er ekkert sem segir að auglýsa þurfi þau störf, þ.e. ef þau eru til langframa.

Ég tel æskilegt að auglýsa störf sem verið er að ráða í til framtíðar. Það er reyndar tekið fram hér að ef verið er að flytja starf frá stofnun inn í ráðuneyti þá losni starfið í stofnuninni eða öfugt og annað starfið sé auglýst en ekki hitt. Mér finnst það ekki skynsamlegt og ég tek undir með samtökum starfsmanna ríkisins, þau hafa gert athugasemd við þetta. Mér finnst eðlilegt að við hugsum til þess að ef við erum með hæft fólk — svo kemur líka fram þetta með launahvatann sem ekki er gerð nánari grein fyrir — getum við (Forseti hringir.) gert (Forseti hringir.) ráð fyrir því að hæfasta fólkið fái starfið en ekki bara það sem flutt er til án auglýsingar.