144. löggjafarþing — 56. fundur,  26. jan. 2015.

vopnaburður og valdbeitingarheimildir lögreglunnar.

[15:53]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Það að valbeitingarheimildir lögreglunnar skuli vera leynilegar þýðir að almenningur getur ekki veitt lögreglunni aðhald í beitingu þeirra. Hvers vegna skiptir það máli? Ég get nefnt dæmi. Þegar ég mótmælti mannréttindabrotum íslenskra stjórnvalda gagnvart meðlimum Falun Gong á sínum tíma, þegar þeir komu hingað vegna komu forseta Kína, Jiangs Zemins, til landsins, vorum við félagarnir fjórir handteknir á Geysissvæðinu og settir upp í bíl. Við þráspurðum hvers vegna við værum handteknir. Við fengum engin svör en eftir að hafa spurt átta eða níu sinnum hlógu lögreglumennirnir svolítið í bílnum og sögðu: Þetta er ekki bandarísk bíómynd. En þeir vissu greinilega ekki það sem við vissum, að stjórnarskráin segir að það verði að upplýsa fólk um hvers vegna það sé handtekið. Af því að við vissum það fórum við í mál við lögregluna og unnum við málið fyrir héraðsdómi og létum það fé sem við fengum, eða ég gerði það alla vega, renna til Amnesty International, enda var tilgangurinn með þessu öllu saman að standa vörð um mannréttindi og gagnrýna brot á þeim. Við hefðum ekki farið af stað með neina kæru nema af því að við þekktum hvar mörkin voru varðandi valdbeitingu lögreglunnar. Við vissum að samkvæmt stjórnarskránni var lögreglan að brjóta lög, hún var að brjóta stjórnarskrána með valdbeitingu sinni. Það er svo mikilvægt að almenningur geti haft aðhald með þeim sem fara með framkvæmdarvaldið, löggjafarvaldið og dómsvaldið og sér í lagi þegar framkvæmdarvaldið beitir ofbeldi, sem það þarf vissulega og réttilega að gera við vissar kringumstæður en einmitt þess vegna þarf almenningur að vita hvar mörkin liggja og geta veitt aðhald.