144. löggjafarþing — 56. fundur,  26. jan. 2015.

vopnaburður og valdbeitingarheimildir lögreglunnar.

[16:00]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Forseti. Ég vil eins og aðrir þingmenn þakka málshefjanda fyrir að hafa hafið þessa umræðu og hæstv. ráðherra fyrir hennar svör. En þessi umræða er til komin vegna undarlegra atburða, vil ég kalla það, sem komu upp á yfirborðið síðasta haust. Það kom í ljós að embættismenn geta án nokkurrar umræðu ákveðið að endurnýja, og það sem miklu meira er að uppfæra, vopnabúnað lögreglu og Landhelgisgæslu. Það var, að því er virðist, vegna þess að vopnin áttu ekki að kosta okkur neitt. Síðan kom í ljós að þessi vopn voru í geymslu úti á Keflavíkurflugvelli og tollurinn virtist ekki vita af þeim. Það var ekki fyrr en eftir alla þessa umræðu í blöðunum og annars staðar að þessi vopn voru síðan innsigluð.

Enn á eftir að leiða til lykta, tel ég, hvernig þetta mátti allt verða. Ég held að það sé eitthvað að í stjórnsýslunni þarna. Það má vel vera að það sé svo að ríkislögreglustjóri geti ákveðið það einn og sér að uppfæra búnað lögreglunnar en þá þarf að breyta því.

Eins og komið hefur fram eru lögin og verklagsreglurnar trúnaðarmál og hæstv. ráðherra segir hér að hún sé að hugsa um og muni á næstu dögum taka ákvörðun um hvort þær verði gerðar opinberar eða ekki. Ef hún tekur þá ákvörðun að ekki eigi að gera þær opinberar tel ég að Alþingi þurfi að koma þar að og breyta lögunum til að það verði skylda að þær séu opinberar.