144. löggjafarþing — 56. fundur,  26. jan. 2015.

lögregla og drónar.

449. mál
[17:01]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Helgi Hrafn Gunnarsson) (P):

Virðulegi forseti. Í frétt í Viðskiptablaðinu frá 24. júlí síðastliðnum kemur fram að lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hyggist kaupa dróna til að nota við lögreglustörf. Af fréttinni og viðtalinu að dæma er ekki fyllilega skýrt hvernig lögreglan sér fyrir sér að drónar verði notaðir af lögregluyfirvöldum og þá ekki heldur hvort sérstakar reglur séu í gildi sem heimili eða banni dróna hér á landi.

Drónar geta verið til margra hluta nytsamlegir, bæði til góðs og ills. Þá er hægt að nota til umferðareftirlits, fíkniefnaræktunareftirlits, við leit að fólki með hitamyndavélum, til mannfjöldastjórnunar, til yfirlits við vettvang glæpa og umferðarslysa og síðast en ekki síst er hægt að nota dróna til njósna, þ.e. til að fylgjast með tilteknum einstaklingum eða hópum fólks.

Mikilvægt er áður en lögreglan fer að nota þessi tæki að fyrir liggi hver fyrirhuguð notkun þeirra sé. Taka þarf afstöðu til notkunarinnar út frá persónuverndarsjónarmiðum og leggja mat á hvort og hvers kyns reglur þarf að setja um notkunina. Það er því miður þannig að réttarstaða einstaklingsins gagnvart lögreglunni er oft nokkuð óljós. Jafnvel þótt lagareglur kunni að vera skýrar þá vefst oft fyrir almenningi að átta sig á hvar mörk friðhelgi þeirra liggja og hve langt lögreglan má ganga á friðhelgi einstaklinga. Vegna valdheimilda lögreglunnar almennt og takmörkuðu eftirliti með störfum hennar valda fréttir af fyrirhuguðum kaupum á dróna því ákveðnum áhyggjum. Því vil ég spyrja hæstv. innanríkisráðherra hvort lögreglan hafi fest kaup á dróna eða fyrirhugi slík kaup, hvort lögreglan hafi eignast dróna með öðrum hætti eða hvort fyrirhugað sé að hún fái slíkan búnað að gjöf eða láni.

Sömuleiðis langar mig að spyrja: Telur hæstv. ráðherra lögreglu hafa lagaheimild til að kaupa og nota dróna? Hvernig sér ráðherra fyrir sér að dróni í eigu lögreglunnar nýtist frá degi til dags og telur hæstv. ráðherra að setja þurfi sérstakar reglur um notkun lögreglunnar á drónum? Ef svo er hvert yrði einkum efni slíkra reglna?