144. löggjafarþing — 67. fundur,  17. feb. 2015.

jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku.

107. mál
[16:56]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég geri ráð fyrir að í hv. atvinnuveganefnd hafi skýrsla starfshópsins verið rædd og niðurstöður hennar. Það er heilmikill munur þarna á frumvarpinu sem meiri hluti hv. atvinnuveganefndar mælir með að verði samþykkt og þeim niðurstöðum sem starfshópurinn komst að á sínum tíma. Meðal annars verða, með þessum tillögum sem hv. þingmaður mælir með að verði samþykktar, álögur meiri á heimili í þéttbýli en gert var ráð fyrir í tillögum starfshópsins. Munurinn er kannski helstur sá að þetta fer í gegnum dreifikerfi samkvæmt þessum tillögum, en samkvæmt tillögum starfshópsins hefðu álögur verið settar á hverja keypta kílóvattstund.

Ég vil spyrja hv. þingmann hvort þessi leið sem farin er muni til dæmis ekki koma harkalega niður á garðyrkjubændum sem starfa í dreifbýli. Í leiðinni er stóriðjunni algerlega sleppt, en ekki var gert ráð fyrir því í tillögum starfshópsins.

Ég vil biðja hv. þingmann að nota þann tíma, þó að stuttur sé, til að færa rök fyrir því að það sé betri leið að leggja hærri álögur á heimili í þéttbýli og á íslenska garðyrkjubændur í þéttbýli en að láta alla sem kaupa raforku greiða ákveðið gjald og þar með stóriðjuna.