144. löggjafarþing — 67. fundur,  17. feb. 2015.

jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku.

107. mál
[16:59]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta atvinnuvn. (Björt Ólafsdóttir) (Bf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti mínu um þetta frumvarp. Ég var ekki sammála þeirri leið sem meiri hluti atvinnuveganefndar vildi fara í málinu, um þó hið góða mál að jafna kostnaði við dreifingu raforku, en það er ekki sama hvernig það er gert.

Ég er sammála markmiði gildandi laga um að stuðla að jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku til almennra notenda, enda er um að ræða sameiginlega auðlind þjóðarinnar. Ég er þó ósammála þeirri leið sem felst í frumvarpinu, þ.e. að lagt verði sérstakt gjald á dreifiveitur. Samkvæmt frumvarpinu verður tekinn upp sérstakur skattur á íbúa og ekki síst fyrirtæki í þéttbýli til að fjármagna niðurgreiðslu í dreifbýli. Verði frumvarpið að lögum mun það leiða til aukinna útgjalda heimila, fyrirtækja og sveitarfélaga í þéttbýli.

Fram kemur í frumvarpinu að frá árinu 2005 hafi árlega verið varið 240 millj. kr. af fjárlögum til að jafna kostnað við dreifingu raforku. Fram kemur einnig að kostnaður við fulla jöfnun í samræmi við lögin er nú áætlaður um 1 milljarður kr. Að mati 1. minni hluta, eða mínu mati, er verkefnið sameiginlegt öllum í samfélaginu og eðlilegra væri að tryggja nægt framlag í fjárlögum fremur en að leggja aukin gjöld á suma. Það eru sumir sem borga, það er þéttbýlið sem borgar en ekki jafnt á allt landið.

Fram kom fyrir nefndinni að sá skattur sem frumvarpið felur í sér muni hækka raforkureikning heimila og ekki síst fyrirtækja í þéttbýli. Einföld fyrirtæki eins og bakarí, þvottahús eða bara hver önnur fyrirtæki sem nota mikla raforku munu sjá aukinn kostnað á rafmagnsreikningum sínum. Sú hækkun hefur áhrif á vísitölu neysluverðs. Ýmsir sem tjáðu sig um málið fyrir nefndinni töldu það vekja furðu að ekki væri vikið að áhrifum skattlagningarinnar á atvinnurekstur í frumvarpinu en ljóst mætti vera að raforkukostnaður vægi þungt í rekstri margra fyrirtækja.

Í athugasemdum við frumvarpið kemur fram að jöfnunargjald á raforkudreifingu muni hafa lítils háttar áhrif á vísitölu neysluverðs. Ég og umsagnaraðilar voru margir mjög ósammála þeirri staðhæfingu og var meðal annars bent á að fyrirtæki í þéttbýli sem nota mikla raforku þyrftu að sætta sig við milljóna króna hækkun á raforkukostnaði á ári með tilkomu jöfnunargjaldsins og mundi slík hækkun skila sér út í almennt verðlag. 1. minni hluti telur heppilegra að ríkissjóður fjármagni slíka félagslega aðgerð með skattfé í stað þess að orkufyrirtæki sinni innheimtu gjalds til að jafna kostnað við dreifingu raforku.

Að lokum vil ég segja það, virðulegi forseti, að ég tek undir þau sjónarmið sem komið hafa fram bæði hjá hv. þm. Oddnýju G. Harðardóttur og 2. minni hluta nefndarinnar, þó að ég hafi valið að fara aðra leið, en það er að búið er algjörlega að taka út stóriðjuna. Það er verið að leggja gjöld á almennan markað og atvinnulífið, allt atvinnulíf nema stóriðjuna. Maður hlýtur að spyrja sig af hverju það er gert. Því var borið við að ekki væri hægt að breyta einhverjum samningum. En maður sér nú ýmislegt vera gert í þessum sal og ég tel að það hafi ekki verið fullreynt, raunar ekki reynt á það að neinu leyti, því að nefndin fjallaði ekkert um þessi mál, því miður.

Megininntak málflutnings míns er þetta: Mér finnst ekki sanngjarnt að auka álögur á þéttbýli í þeim góða tilgangi þó að jafna út þennan kostnað, en það verða þá bara allir að bera hann saman ef fara á þessa leið. Og því tel ég að réttast væri að gera það fyrir skattfé almennings.