144. löggjafarþing — 67. fundur,  17. feb. 2015.

jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku.

107. mál
[17:17]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Ég vil aðeins ræða þessar tillögur sem liggja fyrir og í raun lýsa furðu minni á því að hæstv. iðnaðarráðherra og meiri hluti hv. atvinnuveganefndar skuli leggja það til sem lagt er til hér.

Hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir fór ágætlega yfir tillögur sem starfshópur, skipaður árið 2011, lagði fram og kynnti fyrir atvinnuveganefnd og fjárlaganefnd á árinu 2012. Þær gengu út á það að sett yrði gjald á hverja selda raforkustund og bæði húshitunar- og raforkukostnaður jafnaður með þeim hætti. Þverpólitískur samhljómur var um þær tillögur starfshópsins og meðal annars lagði hæstv. núverandi forseti Alþingis, þá hv. þingmaður, Einar K. Guðfinnsson, fram frumvarp sem var algjörlega í takti við þær tillögur starfshópsins. Frumvarpið var lagt fram á 141. og 142. þingi en náði ekki fram að ganga fyrir margra hluta sakir en alla vega var ljóst að gerður var að því góður rómur og hefði verið góður grundvöllur fyrir því að halda áfram vinnu við þetta á þeim nótum.

Ég vil grípa aðeins niður í greinargerð með þessu frumvarpi, en þar er einmitt rætt um lækkun húshitunarkostnaðar á þeim svæðum þar sem hann er hæstur, þar sem hann hefur verið fyrirferðarmikill árum saman. Einhver fjárhæð hefur verið ákveðin í fjárlögum og ójöfnuður hefur aukist með árunum og því mikilvægt að setja þennan starfshóp saman og koma með einhverjar tillögur til að koma á jöfnuði. Þessi kostnaður er orðinn mjög þungur í heimilisbókhaldi þeirra sem búa á köldum svæðum. Í greinargerð með frumvarpi þáverandi hv. þm. Einars K. Guðfinnssonar, nú hæstv. forseta Alþingis, segir:

„Um 90% Íslendinga búa svo vel að hafa aðgang að ódýrum og umhverfisvænum jarðhita í formi jarðvarmaveitna. Um 10% landsmanna hafa hins vegar ekki aðgang að þessari auðlind og þurfa að notast við rafhitun eða olíu. Slík hitun er margfalt dýrari og til að koma í veg fyrir að lítill hluti landsmanna þurfi að greiða margfalt hærra verð fyrir upphitun íbúðarhúsnæðis eru raforka og olía til hitunar niðurgreiddar að hluta. Þær aðgerðir sem grípa þarf til, svo að lækka megi húshitunarkostnaðinn, ná því aðeins til um 10% heimila í landinu og ættu því vel að vera viðráðanlegar.“

Frumvarpið fylgir mjög nákvæmlega þeirri aðferð sem starfshópurinn skilaði af sér, þær tillögur eru að mati flutningsmanna ábyrgar og raunsæjar. Starfshópurinn hannaði ýmsa kosti, bæði varðandi þau markmið sem eðlilegt var að setja sér um jöfnun húshitunarkostnaðar sem og fjármögnun þeirra aðgerða. Síðan er farið yfir það að þessi starfshópur var skipaður fulltrúum þeirra svæða sem búa við mikinn húshitunarkostnað og þekkja því vel vandann sem við er að etja. Í greinargerðinni segir að í honum hafi einnig setið fulltrúar stjórnvalda, þannig að telja megi víst að tillögurnar njóti stuðnings þeirra og loks voru það sérfróðir aðilar sem hafa sérstaklega kynnt sér þessi mál.

Í greinargerðinni er líka talað um að gera megi ráð fyrir að góð pólitísk samstaða takist um málið, að ákall um aðgerðir á sviði húshitunarmála hafi borist úr öllum stjórnmálaflokkum, að á Alþingi hafi oft verið fjallað um þessi mál og að hingað til hafi þeirri aðferð verið beitt að reiða sig á niðurgreiðslur sem hafa ráðist af fjárlögum og því skapað óvissu og sveiflur í húshitunarkostnaði. En með tillögum starfshópsins er gert ráð fyrir að fjármögnun verði til staðar með því að leggja sérstakt gjald á selda kílóvattstund sem nægi til þess að greiða niður að fullu dreifikostnað orkunnar þannig að lækka megi húshitunarkostnað á þeim svæðum þar sem hann er nú hæstur.

Sýnt hefur verið fram á það í rannsóknum að þessi hái kostnaður, bæði vegna raforku og húshitunar, sem kemur við pyngju takmarkaðs hluta landsmanna, hefur áhrif á búsetu. Mönnum finnst ekki aðlaðandi að setjast að þar sem húshitunarkostnaður er margfalt hærri en á þéttbýlissvæðunum. Þess vegna styð ég það að farið sé út í þessar aðgerðir og það er aðkallandi, en ég gagnrýni þá leið sem farin er. Sú leið sem verið er að leggja til hér og meiri hluti hv. atvinnuveganefndar styður, og hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra leggur áherslu á að farin verði, er þannig að kostnaður er lagður á heimili í þéttbýli og á öll fyrirtæki í landinu nema stóriðjuna; stóriðjan nýtir ekki dreifikerfin og þar með er stóriðjan fyrir utan þetta. En við erum að tala um stofnanir þar sem raforkukostnaður mun hækka mjög mikið. Ég get nefnt Landspítalann sem dæmi, ég get nefnt garðyrkjubændur, sem hingað til hafa kvartað undan háu raforkuverði. Garðyrkjubændur í þéttbýli, sem fá rafmagn í gegnum dreifiveiturnar, munu náttúrlega þurfa að borga þetta gjald eins og aðrir. Það er sem sagt atvinnulífið, stofnanir, allir í þéttbýli nema stóriðjan. Þetta er ekki sanngjarnt og er ómögulega hægt að samþykkja, herra forseti.

Það er því hækkun á íbúa í þéttbýli og hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir nefndi fjarvarmaveiturnar sem til dæmis eru notaðar í Vestmannaeyjum. Þar mun gjaldið hækka verulega. Í tillögum 2. minni hluta, sem mér finnst vera afar góðar og eru í takti við niðurstöður starfshópsins umrædda, er gert ráð fyrir að raforkuskatturinn, sem á að renna sitt skeið um næstu áramót, verði áfram við lýði. Hann verði að vísu lægri, vegna þess að ekki þurfi að hafa hann jafnháan og hann er núna til þess að standa undir þessari jöfnun. Ég held að það sé afar góð leið og sanngjörn.

Mér finnst mikilvægt að stjórnarliðar fari yfir það með okkur, áður en þetta frumvarp fer til afgreiðslu, af hverju þeir telja að slík leið sé ekki fær. Hvað er ólöglegt við þá leið? Þar greiða allir sem kaupa raforku ákveðið gjald og það er sanngjarnt að þannig fari jöfnunin fram, en mönnum sé ekki stillt upp við það, þeim sem eru hlynntir því að jafna þennan kostnað, að heimilin í þéttbýli borgi fyrir dreifbýlið, en að stóriðjan, sem kaupir 80% af raforkunni, þurfi ekki að borga neitt og komi ekkert inn í þetta mikilvæga samfélagsverkefni sem við höfum staðið frammi fyrir að leysa í mörg ár og reynt að leysa með ýmsum hætti en ekki tekist nægilega vel. En þá er það mjög góð leið að allir sem kaupa raforku greiði ákveðið gjald og verðinu verði síðan jafnað þannig að búsetuskilyrðin á köldum svæðum verði þá jafn aðlaðandi og búsetuskilyrðin í þéttbýlli svæðum.

Ég skora á þá hv. stjórnarþingmenn, sem væntanlega eiga eftir að fylgja þessu áliti meiri hluta hv. atvinnuveganefndar úr hlaði, að þeir fari yfir þessi mál og reyni að sannfæra þá sem hér stendur og aðra sem ekki hugnast þessi leið sem á að fara um að hún sé góð og um að hún sé réttlát og að það sé mikið sanngirnismál að undanskilja stóriðjuna, hún eigi ekki að taka þátt í þeirri jöfnun sem hér er gert ráð fyrir — að það eigi að jafna með því hækka álögur á heimilin í landinu og mikilvægar stofnanir og atvinnuvegi aðra en stóriðjuna.