144. löggjafarþing — 71. fundur,  26. feb. 2015.

nauðungarsala.

573. mál
[11:54]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er að sjálfsögðu rétt og skylt að greiða götu þessa máls. Eðli málsins samkvæmt þolir það ekki bið þannig að ef á að framlengja þennan frest þarf að gera það núna. Rökin sem hér eru færð fram eru pítsupöntunin sem átti að vera sáraeinföld og taka eins og tvær mínútur í gemsa að panta pítsu með SMS-skilaboðum en hefur reynst aðeins flóknari en sumir töldu og 4–5 þús. mál enn óútkljáð.

Vandinn við þessar frestanir og aftur frestanir, ítrekaðar frestanir, er að það kemur auðvitað alltaf að þeim tímapunkti að menn verða að losa um þær og setja hlutina aftur í eitthvert eðlilegt ástand. Það verður að vera hægt að vinna úr svona málum og því eru takmörk sett gagnvart ýmsum veigamiklum réttarfarslegum atriðum, þ.e. hversu langt er hægt að ganga í því að taka rétt af þeim sem eiga kröfur og eru að vinna úr þeim eða ganga eftir því að ná fram rétti sínum.

Ef farið er af stað, og enn þarf að fara af stað, hlýtur maður að spyrja: Er örugglega róið fyrir víkina að þessu sinni? Er öruggt að 1. október 2015 dugi? Það er fyrri spurning mín til hæstv. ráðherra.

Ég er í öðru lagi dálítið hugsi yfir því að þessar frestanir hafa verið af tvennum toga. Á síðasta kjörtímabili voru þær ítrekað framlengdar og þá almennar, þær giltu í raun fyrir alla. Svo mun einnig hafa verið um frestunina hina fyrstu á þessu kjörtímabili með tilliti til þess að þá væri verið að vinna úr kosningaloforðinu mikla. Þá var um almenna frestun á nauðungarsölum að ræða á íbúðarhúsnæði en núna er hún sértæk. Hún er bundin við þá sem hafa sótt um. Ég velti fyrir mér: Hver er staða annarra sem ekki sóttu um af því að þeir sáu að þangað höfðu þeir ekkert að gera en gætu haft nákvæmlega jafn gildar (Forseti hringir.) og málefnalegar ástæður fyrir því að fá einhverja mánuði í viðbót til að vinna úr sínum málum, t.d. að þeir hafi svo seint fengið niðurstöðu (Forseti hringir.) í ágreining um lögmæti lána sem hvíldu á húsnæði þeirra?