144. löggjafarþing — 71. fundur,  26. feb. 2015.

raforkulög.

305. mál
[13:30]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Í þessu máli hefur kannski ekki mikið verið rætt um það hvaða vandamál við horfumst í augu við þegar þetta mál um raflínur í jörð kemur fram. Hugmyndin á bak við þessi frumvörp og þingsályktunartillöguna snýr að því að reyna að leysa hér mjög brýn málefni sem hafa kristallast í umræðunni á síðustu dögum, en það er einmitt um takmarkaða flutningsgetu í íslensku raforkukerfi. Eins og kom fram hjá sveitarstjóra á Dalvík og sveitarstjórnarmönnum á Austurlandi og hefur komið fram víðar er staðan mjög alvarleg að þessu leyti. Við vitum af dæmum á Siglufirði, Dalvík og víðar þar sem ekki hefur verið hægt að svara fyrirspurnum aðila um að setja upp atvinnurekstur vegna þess að það liggur fyrir að ekki er hægt að afhenda rafmagn. Landsnet hefur ekki getað farið í neinar stórar framkvæmdir við lagningu raflína í sjö ár. Það bíða mjög brýn verkefni. Á Akureyri er stórt fyrirtæki sem heitir Becromal. Það hefur ekki náð að skoða það að stækka starfsemi sína vegna þess að ekki er hægt að útvega því raforku til þeirrar stækkunar. Málið er mjög aðkallandi. Í allri meðferð málsins hefur verið lagt upp með það í hv. atvinnuveganefnd að vanda mjög til málsmeðferðarinnar. Við höfum gefið okkur mjög langan og góðan tíma í að fara yfir málið. Við höfum haldið, held ég, 18 eða 19 fundi um þetta mál, við höfum farið í heimsóknir, við höfum náttúrlega fengið fjöldann allan af gestum á fjölbreyttum vettvangi. Við höfum leitt saman andstæða hópa á nefndarfundum til að láta þá skiptast á skoðunum í viðurvist nefndarinnar sem er ákaflega sjaldgæft, alla vega miðað við reynslu mína af þingstörfum. Það er áhugavert og greiddi dálítið fyrir upplýsingum og leiðrétti kannski ákveðinn misskilning sem hafði verið í gangi. Þannig höfum við unnið þetta mál í mikilli samheldni í nefndinni, mjög mikilli samheldni. Það hefur ekki komið fram nein gagnrýni frá neinum nefndarmanna um það hvernig við höfum haldið á málum. Ég vil því hafna því alfarið að hér sé um illa unnið mál að ræða eins og haldið var fram áðan.

Ég er gagnrýndur fyrir að hafa gagnrýnt vinnu hv. umhverfisnefndar við þetta mál. Mér finnst sú gagnrýni í raun standa, sérstaklega í ljósi þess hversu margar athugasemdir koma fram. Ef þingnefndir ætla almennt að viðhafa mjög góða málsmeðferð í málum er það í mínum huga þannig að við þurfum að skoða mál frá öllum hliðum. Hv. umhverfisnefnd þingsins sá ekki ástæðu til að kalla til fyrirtæki eins og Landsnet, Orkustofnun, ráðuneytið sem lagði fram málið, ekki nein orkufyrirtæki, ekki Samorku, ekki Samtök atvinnulífsins. Þetta eru mjög stórir þátttakendur í þessu máli. Ég hefði haldið að til að mynda sér heildstæða skoðun hefði verið nauðsynlegt að heyra ofan í þetta fólk. Þetta varð grunnurinn að þeirri gagnrýni sem ég lagði fram, sérstaklega í ljósi þess hversu margar athugasemdir koma fram við málið. Það er auðvitað þannig hjá okkur í atvinnuveganefnd að við fjöllum um málið í atvinnulegu tilliti, en að sjálfsögðu boðum við til okkar alla sem koma að umhverfismálum og hafa önnur sjónarmið. Helstu ágreiningsmálin í málinu hafa snúið að því hversu mikið við munum geta lagt af raflínum í jörð í framtíðinni. Ágreiningurinn snýst ekki mikið um að ekki þurfi að leggja rafmagn um landið heldur um þá stöðu og það vantraust sem hefur ríkt hjá mjög mörgum aðilum í garð Landsnets við útreikninga þeirra á kostnaði við að leggja raflínur í jörð. Við höfum eytt miklum tíma í nefndinni í að fara yfir það.

Landsnet var og er í gildandi lögum mjög bundið í ákvarðanatöku sinni varðandi val á þessu, vegna þess að þar stendur hreinlega að farin skuli ódýrasta leiðin. Við höfum horft mjög á það hvernig við gætum aukið vægi jarðstrengja. Eins og ítrekað hefur komið fram á nefndarfundum, og enginn ágreiningur var á milli nefndarmanna um það, viljum við sjá eins mikið af flutningskerfinu og raunhæft er fara í jörð og þar með taldar háspenntar flutningslínur. Það hlýtur að vera sameiginlegt markmið okkar allra. En við höfum línu til að feta í þeim efnum sem er jafnvægi á milli þess hversu langt við göngum á þeim vettvangi og hversu mikið þess fer að gæta á rafmagnsreikningum heimila og almennra fyrirtækja í landinu.

Við breyttum málinu að því leyti í meðförum okkar og hækkuðum það hlutfall sem jarðstrengir mega vera af hlutfalli við kostnað við loftlínulagnir og breyttum viðmiðinu einnig þannig að miðað er við stofnkostnað en ekki kostnað sem tekur yfir nýtingartíma eða líftíma, vegna þess að það var fyrirséð eftir þær upplýsingar sem komu fram fyrir nefndinni að slíkt mat mundi valda miklum deilum í framtíðinni.

Við hvetjum einnig til þess í nefndaráliti okkar að óhludrægum aðilum verði falið að fara ofan í þessa reikninga, að ráðuneytið muni beita sér fyrir því að eyða þeirri tortryggni sem greinilega ríkir um málið.

Í nefndaráliti meiri hluta og minni hluta umhverfisnefndar koma fram ýmis atriði sem vert er að skoða. Eftir að við höfum rætt málið hef ég þegar sett í gang vinnu við að skoða einhver af þeim atriðum. Ég vil nefna þar sérstaklega þær kæruleiðir sem hafa verið nefndar, hvernig við getum tryggt að umsagnir og athugasemdir og þá kæruleiðir út úr því geti verið með sem bestum hætti og tekið þannig tillit til þeirra sem um hafa vélað. Mér finnst líka áhugaverð sú hugmynd sem hefur komið fram og einhver okkar hafa rætt, að kerfisáætlun fái í raun sömu stöðu í þinginu og samgönguáætlun eða rammaáætlun. Það má segja að margt sé sambærilegt með til dæmis rammaáætlun og samgönguáætlun og kerfisáætlun, þ.e. þegar kemur að samskiptum við sveitarfélögin. Það er verið að reyna að höggva á þann hnút sem valdið hefur þeirri stöðu sem uppi er í þessum málum í dag á sama hátt og gert er í rammaáætlun þar sem sveitarfélögum er skylt að setja inn í aðalskipulag sitt þær ákvarðanir og niðurstöður sem þar koma fram. Mér finnst sjálfsagt að skoða þetta þannig að þingið hafi aðkomu að því eins og öðru. Það ásamt öðrum athugasemdum finnst mér sjálfsagt að við skoðum. Við munum bíða þess í nefndinni að málið komi inn til okkar milli 2. og 3. umr. og þá með þeim skilaboðum sem því fylgja. Við munum taka það fyrir og ígrunda betur þau nefndarálit sem komu frá umhverfisnefnd ásamt öðrum ábendingum sem hér hafa komið fram.