144. löggjafarþing — 71. fundur,  26. feb. 2015.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 75/2013 um breytingu á II. viðauka við EES-samninginn.

425. mál
[21:35]
Horfa

Frsm. utanrmn. (Birgir Ármannsson) (S):

Hæstv. forseti. Ég geri grein fyrir nefndaráliti utanríkismálanefndar um þá þingsályktunartillögu sem hér er til umræðu. Nefndin fjallaði um málið og fékk á sinn fund fulltrúa utanríkisráðuneytis og umhverfisráðuneytis. Málið var sent til umsagnar en ekki bárust umsagnir frá þeim aðilum sem gefinn var kostur á að senda inn athugasemdir.

Í nefndarálitinu er að vanda gerð grein fyrir tilurð málsins. Hér er fyrst og fremst um að ræða eftirlit með ólöglegu skógarhöggi og viðskiptum með timburvörur sem eiga sér uppruna í ólöglegu athæfi. Er gert ráð fyrir eftirliti með þeim aðilum sem setja timbur og timburvörur á markað og er markmiðið sem sagt að gera rekjanleika slíkra afurða auðveldari.

Svo ég vitni í nefndarálitið segir þar, með leyfi forseta:

„Markmið reglugerðanna er að stemma stigu við ólöglegu skógarhöggi og tengdum viðskiptum. Kveðið er á um bann við markaðssetningu slíks timburs og timburvara innan Evrópska efnahagssvæðisins. Notast verður við sérstakt aðgátskerfi þegar vara er fyrst markaðssett á EES-svæðinu til þess að koma í veg fyrir að ólöglega höggvið timbur eða timburvörur rati á markað. Þá er aðilum sem selja timbur og timburvörur gert að tryggja rekjanleika vörunnar. Ríki skulu tilnefna lögbært yfirvald til þess að hafa eftirlit með því að ákvæðum reglugerðanna sé fylgt eftir. Þá skulu ríki jafnframt sjá til þess að viðurlög við brotum á reglugerðunum séu skilvirk.

Stefnt er að framlagningu frumvarps á yfirstandandi löggjafarþingi sem mun veita lagastoð fyrir innleiðingu gerðanna í formi reglugerðar. Við umfjöllun nefndarinnar kom fram að reglurnar munu helst hafa áhrif á framleiðendur timburs og timburvara, innflytjendur, dreifendur og aðra rekstraraðila sem koma að sölu timburs og timburvara. Rekstraraðilar munu standa frammi fyrir kostnaði vegna skyldu þeirra til að viðhafa áreiðanleika og beita ákveðnum verklagsreglum við markaðssetningu timburs og timburvara. Að auki leiða gerðirnar til aukinna verkefna fyrir hið opinbera í formi eftirlits. Nákvæmt kostnaðarmat allra þátta bíður undirbúnings innleiðingarfrumvarps og tilheyrandi samráðs við hagsmunaaðila. Gerðirnar munu leiða til þess að neytendur verða betur upplýstir um uppruna þeirrar vöru sem þeir kaupa, en mikilvægt er að slíkt hafi ekki í för með sér ótilhlýðilega hækkun á vöruverði. Því leggur nefndin áherslu á að kostnaði verði haldið í lágmarki eins og frekast er kostur við útfærslu skuldbindinganna hér á landi.“

Undir þetta nefndarálit rita eftirfarandi fulltrúar í utanríkismálanefnd, auk þess sem hér stendur: Ásmundur Einar Daðason, Vilhjálmur Bjarnason, Elín Hirst, Frosti Sigurjónsson, Katrín Jakobsdóttir, Óttarr Proppé og Silja Dögg Gunnarsdóttir.