144. löggjafarþing — 76. fundur,  3. mars 2015.

jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku.

107. mál
[14:32]
Horfa

Björt Ólafsdóttir (Bf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Markmiðið er gott, það er gott markmið að jafna kostnað við dreifingu raforku, en aðferðin sem hér er valin er afleit. Hún er þannig að fyrirtækin í þéttbýli eru skattlögð til að borga niður fyrir aðra. Það er ekki rétt sem hæstv. sjávarútvegsráðherra segir, að við séum að jafna kostnað. Þéttbýlið er að borga meira fyrir dreifbýlið, það er þannig. Hér leggur Sjálfstæðisflokkurinn, flokkur atvinnulífsins hefur hann kallað sig, aukinn skatt (Gripið fram í: Nýja skatta.) á atvinnulíf í þéttbýli svo við höfum það á hreinu.

Við sitjum hjá við þessa afgreiðslu af því að við erum ekki sammála þessari aðferðafræði.