144. löggjafarþing — 82. fundur,  19. mars 2015.

húsnæðismarkaður og afnám verðtryggingar.

[10:57]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ekki benda á mig, er það sem hæstv. ráðherra segir varðandi verðtrygginguna. Málið var töluvert einfaldara í aðdraganda kosninga þegar átti að vera hægt að gera þetta bara sisvona eftir hádegi, að afnema verðtryggingu. Það eina sem hefur gerst síðan og heyrir beinlínis undir hæstv. ráðherra er að Íbúðalánasjóður hefur hætt við að opna fyrir óverðtryggð lán, bjóða upp á óverðtryggð lán. Það er það sem hefur gerst. Það heyrir beint undir hæstv. ráðherra. En hvað er þá hæstv. ráðherra að segja varðandi afnám verðtryggingar sem lofað var með svo stórum orðum í aðdraganda kosninga og sömuleiðis hér úr þessum ræðustól og síðast núna á haustþingi að yrði gert á næstunni? Þar segir hæstv. ráðherra: Ekki horfa á mig, horfið eitthvert annað, horfið á hæstv. fjármálaráðherra.

Virðulegi forseti. Þetta er auðvitað ekki boðlegt af hálfu ráðherra sem hefur fengið titilinn félags- (Forseti hringir.) og húsnæðismálaráðherra. Hún á að geta svarað fyrir ríkisstjórnina í málum (Forseti hringir.) sem snúa að lánveitingum til húsnæðislána, virðulegi forseti. Þetta er auðvitað ekki (Forseti hringir.) boðlegt en segir mér það að málin eru að sofna.