144. löggjafarþing — 82. fundur,  19. mars 2015.

húsnæðismarkaður og afnám verðtryggingar.

[10:59]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Það hefur margítrekað komið fram í máli forustumanna stjórnarflokkanna að við erum að setja heimilin í fyrsta sætið. Stóra verkefnið var náttúrlega skuldaleiðréttingin. Við lofuðum síðan því að afnema verðtryggingu á neytendalánum. Það er verið að vinna að því. Ég vísa hins vegar til þess að þeir lagabálkar heyra einfaldlega ekki undir mig. Öll ríkisstjórnin er sammála um að vinna að þeim tillögum sem komu fram frá nefnd sem var undir forustu forsætisráðherra varðandi afnám verðtryggingar af neytendalánum. Ég fór síðan í gegnum þau frumvörp sem heyra beint undir mig og ég mun mæla fyrir, mér heyrðist að þingmanninum litist ágætlega á þau, alla vega nefndi hún ekki að hún hefði einhverjar athugasemdir við þau frumvörp. En ég er viss um að við munum eiga mjög góða umræðu um þau mál þegar þau koma inn í þingið, enda verulega stór mál, þar sem við munum svo sannarlega sjá hag heimila í landinu batna þegar við erum búin að samþykkja þau.