144. löggjafarþing — 82. fundur,  19. mars 2015.

utanríkis- og alþjóðamál.

621. mál
[14:06]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Svo ég taki upp þráðinn þar sem honum sleppti hjá hv. þingmanni sem talaði á undan mér um ójöfnuðinn í heiminum þá hefði ekki verið úr vegi að gera meiri grein fyrir þeirri ógn sem friði í heiminum stafar af vaxandi ójöfnuði milli heimssvæða og innan ríkja. Sameinuðu þjóðirnar hafa ítrekað bent á í skýrslum að vaxandi ójöfnuður í heiminum sé stærsta ógnin við frið í heiminum. Við horfum vissulega á stöðu á alþjóðavettvangi sem veldur okkur áhyggjum og eins og bent er á í skýrslunni er ófriðvænlegra en lengi hefur verið víða um heim en ég held að við eigum að taka alvarlega þær ábendingar Sameinuðu þjóðanna og sérfræðinga þeirra að hluti af orsök vandans sé vaxandi ójöfnuður. Það er hluti af flóttamannavandanum sem við horfumst þegar í augu við en ekki hafa fleiri verið á vergangi vegna stríðsátaka frá lokum seinni heimsstyrjaldar. Það eru óhugnanlegar sögurnar sem við heyrum nánast á hverjum degi af flóttafólki sem reynir að komast til Evrópu, börn án foreldra að flýja stríðsátök. Mér finnst það að sjálfsögðu vera höfuðhlutverk okkar eins og annarra þjóða sem búa við mikla velsæld — þrátt fyrir áföll sem við höfum orðið fyrir þá búum við samt við mikla velsæld, stöndum enn vel að vígi á öllum lífskjaralistum og horfum fram á að fikra okkur hægt og örugglega upp þá lista — á alþjóðavettvangi fyrst og fremst að stuðla að friðvænlegri heimi fyrir allt þetta fólk, öll þessi börn og foreldra þeirra.

Ég hefði gjarnan viljað fá meiri umfjöllun um þetta í umræðu um öryggis- og varnarmál. Þegar þau mál eru rædd finnst mér áherslan allt of oft vera á einmitt hervæðingu og vígvæðingu en ekki hvað við getum gert í raun og veru til að tryggja frið í heiminum. Það gerum við einmitt með því að leggja okkar af mörkum í þróunarsamvinnu þannig að ég tek undir með hv. þingmönnum sem töluðu hér á undan, Birgittu Jónsdóttur og Össuri Skarphéðinssyni, þar þarf að gera miklu betur. Það er mikill skaði að horfið hafi verið frá þeirri þingsályktun sem hér var samþykkt með einu mótatkvæði 2013. Handhafi þess mótatkvæðis varð síðan hv. formaður fjárlaganefndar. Ég veit ekki hvort þetta eina mótatkvæði hefur vegið meira en þau 62 atkvæði sem greidd voru með aðgerðaáætlun um þróunarsamvinnu.

Það liggur alveg fyrir eins og hv. þm. Össur Skarphéðinsson benti á að þótt Bretar hafi gengið í gegnum kreppu og tekist á um ýmislegt á innanlandsvettvangi í niðurskurði og alls kyns aðgerðum, heldur betur, ekki ætla ég nú að fara að mæla því öllu bót sem þar var gert, en það var merkilegt að þar skapaðist þverpólitísk samstaða um að auka framlög til þróunarsamvinnu til að ná þúsaldarmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna. Þetta held ég líka að Íslendingar geri vel. Mér hefur sýnst það á þeim kynningum sem ég hef fengið á starfi Þróunarsamvinnustofunar í samstarfslöndum okkar að þar sé feikilega vel að verki staðið og verkefnin skili árangri. Á það eigum við auðvitað að horfa, ekki bara fjárhæðirnar sem renna í verkefnin heldur hvaða árangri þau skila. Ég held að við getum verið nokkuð stolt og ánægð með hvaða árangri það fé sem við þó setjum til þessa skilar. Ég er ekki í nokkrum vafa um að með því að fylgja þeirri áætlun sem var samþykkt og auka fjármagnið munum við sjá margfaldan ávöxt þeirrar vinnu.

Ég ítreka eins og ég hef áður ítrekað við hæstv. ráðherra að það ætti að vera leiðarljós í utanríkisstefnu okkar hvernig við getum unnið að friðsamlegri heimi. Það gerum við númer eitt, tvö og þrjú með því að beita okkur á þann hátt sem við gerum í gegnum þróunarsamvinnu.

Ég þarf ekki að taka það fram en ég ætla nú samt að gera það af því ég geri það ávallt í umræðum um þessa skýrslu að stefna okkar í Vinstri grænum gagnvart Atlantshafsbandalaginu er óbreytt. Við teljum okkur ekki eiga erindi þar inni og við teljum í raun og veru að eftir því sem árin hrannast upp þá sýni staðreyndir málsins að sú hernaðarstefna sem bandalagið hefur rekið hefur ekki skilað friðsamlegri heimi. Auðvitað hryllir mig eins og aðra við því sem nú stendur yfir í Miðausturlöndum og þeim glæpum sem hryðjuverka- eða glæpasamtökin ISIS standa fyrir, ekki bara gagnvart fólki heldur líka gagnvart menningarminjum. Það var mjög áhugavert sem kom fram á fundi utanríkismálanefndar með Magnúsi Þorkeli Bernharðssyni sem kom á fund nefndarinnar ekki fyrir löngu að við getum ekki horft á það sem er að gerast núna án þess að horfa á sögu þessa svæðis á undanförnum áratugum, þess stanslausa hernaðar og ofbeldis sem þar hefur geisað. Við getum ekki tekið það sem er að gerast úr samhengi við þá staðreynd að flest vopn sem eru seld í heiminum í dag streyma til Miðausturlanda, streyma til Sádi-Arabíu frá þeim sömu löndum sem mynda Atlantshafsbandalagið. Við getum velt því fyrir okkur og nú stendur yfir umræða í Svíþjóð um nákvæmlega þetta: Hvort mundi skila meiri árangri, að við tækjum t.d. á vopnasölu í heiminum eða að halda áfram þeirri taktík að henda sprengjum á fólk og ekki kannski með sérstaklega markvissum hætti? Ég lít á þetta sem glæpasamtök og þannig finnst mér að eigi að eiga við þau.

Mig langar sérstaklega að ræða loftslagsmálin sem ég gerði lítillega að umtalsefni áðan sem ég tel eitt stærsta viðfangsefni samfélagsins alls. Ég nefndi nauðsyn þess að við settum okkur stefnu í málefnum hafsins. Hæstv. ráðherra tók vel í það. Ég ítreka það að ég vænti þess að við munum sjá slíkar tillögur strax næsta haust, því þetta er akútmál. Það er ekki mjög langt síðan Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi, sem einu sinni hétu LÍÚ og Samtök fiskvinnslufyrirtækja en heita þetta í dag, hafa meira að segja ályktað um þessi mál því þau átta sig á því hversu gríðarstórt hagsmunamál þetta er. Þetta er ekki bara spurning um þá sem hafa áhuga á umhverfinu, umhverfisins sjálfs vegna, mannanna vegna, heldur er þetta líka gríðarstórt hagsmunamál fyrir Íslendinga þar sem við reiðum okkur mjög á sjávarútveg. Við gætum horft upp á gerbreytt umhverfi í hafinu í kringum okkur. Ég vænti þess að á næsta ári þegar við fáum skýrslu utanríkisráðherra um utanríkis- og alþjóðamál og við lesum um málefni hafsins verðum við komin með stefnu sem tekur á þeim málefnum því þetta snýst ekki bara um að við náum að nýta þá stofna sem svamla um í hafinu í kringum okkur, þetta snýst um að þeir stofnar séu á staðnum og við getum nýtt þá.

Ég endurtek því þessa ítrekun sem og ítrekun um loftslagsmál. Þar held ég að við Íslendingar eigum gríðarleg sóknarfæri, búandi jafn vel og við gerum af náttúruauðlindum, vatni og jarðhita og öðru. Við gætum verið að taka hraðari skref í átt að orkuskiptum í til að mynda samgöngum og í fiskiskipaflotanum og við ættum að standa fyrir mjög öflugum málflutningi um allan heim til þess að knýja á um þetta. Við gerum það að einhverju leyti í gegnum jarðhitaverkefnin sem við höfum verið að sinna, en þarna held ég að við þurfum að skerpa okkar rödd því að þó við séum lítil þjóð þá getum við haft mikið að segja með því að greina frá því sem við gerum. Við þurfum hins vegar að taka okkur á hér heima og það er eitthvað sem ég ætti að ræða sérstaklega við hæstv. umhverfisráðherra, en við þurfum að stíga miklu hraðari skref í orkuskiptum, hvort sem er í fiskiskipum eða í samgöngum á landi.

Fram undan í loftslagsmálum er nýr fundur í París í desember. Þar á að setja niður markmið sem hafa ekki enn þá verið rædd hér á þingi. Ég vonast til þess að þau verði rædd á Alþingi og komi til umfjöllunar bæði hjá hv. umhverfisnefnd og utanríkismálanefnd, því þar eigum við að vera í fararbroddi að tala með metnaðarfyllri markmiðum. Það eru vonbrigði hvernig til hefur tekist í loftslagsmálum allt frá Ríó-yfirlýsingunni og Kyoto-bókuninni. Það eru gríðarleg vonbrigði að ekki hafi gengið betur að ná þeim markmiðum sem þar voru sett, að þjóðir hafi sagt sig frá vinnu að þeim markmiðum. Þess vegna tel ég að Parísarfundurinn sé afar mikilvægur — við segjum það reyndar í hvert skipti að hver fundur sé sá mikilvægasti — en við horfum líka á breytingarnar sem eru að byrja að gerast. Hvað var að gerast á Vanúatú núna? Horfum bara á þessar auknu öfgar í veðurfari. Við getum ekki litið fram hjá þessu og við getum ekki reynt að benda á að þetta sé bara eins og eitt eldfjall. Allir vísindamenn sem tjá sig um málið á alþjóðavettvangi, nánast allir eru sammála um að við þurfum að horfast í augu við þá staðreynd að þarna er um að ræða loftslagsbreytingar af manna völdum. Þetta er mál sem við getum ekki tekið á ein og sér. Þótt við getum gert ýmislegt í okkar bakgarði þá eru ákvarðanirnar teknar á alþjóðavettvangi.

Mig langar líka að ræða aðeins um Evrópumálin sívinsælu. Eins og ég kom að mjög stuttlega áðan var haldinn fundur í gær um EES-samninginn þar sem því var haldið fram að samningurinn væri munaðarlaus í stjórnkerfinu, það vantaði mannafla til þess að sinna samningnum bæði í stjórnsýslunni og úti í Brussel þannig að Íslendingar hefðu meiri áhrif á það sem væri gert á þeim vettvangi. Það vantaði umræðu hér á landi um samninginn og hvort hann þjónaði þeim hagsmunum sem menn töldu að væru fyrir hendi í upphafi. Þessi fundur var ágætur. Það sem sló mig þegar ég las skýrslu utanríkisráðherra er það sem sagt er um stýrihóp, með leyfi forseta:

„Komið hefur verið á fót stýrihópi um framkvæmd EES-samningsins undir forustu forsætisráðuneytis með þátttöku annarra ráðuneyta og skrifstofu Alþingis. Markmiðið er að greina flöskuhálsa í ferli EES-mála frá upphafi þeirra á vettvangi ESB til loka við innleiðingu í landsrétt. Hópnum er ætlað að skila tillögum til úrbóta varðandi einstaka þætti ferlisins. Þannig sé framkvæmd EES-samningsins sem skilvirkust og um leið skapað svigrúm til að beina kröftum í auknum mæli að snemmgreiningu löggjafar á vettvangi EES og forgangsröðun, þannig að gripið sé til samræmdra viðbragða í stærri hagsmunamálum.“

Við horfumst í augu við mikinn innleiðingarhalla sem er kvartað undan. Menn kvarta líka undan því á Alþingi og það er ekkert bundið við einhvern einn flokk að málin séu að koma inn án þess að nægilegar skýringar fylgi, þetta sé flókið og tyrfið og það vanti skýrari viðbrögð úr stjórnsýslunni. Hér kom fram áðan í máli hæstv. utanríkisráðherra að Evrópustefnu ríkisstjórnarinnar hefði ekki fylgt nein fjárveiting. Það hefur ekki fylgt nein fjárveiting. Settur hefur verið á laggirnar stýrihópur sem hefur gert tillögur. Við eigum fullt af tillögum, virðulegi forseti. Ég sat sjálf í Evrópunefnd ásamt hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni, hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni og fleiri hv. þingmönnum og fleira fólki. Sú nefnd var undir forustu Björns Bjarnasonar. Hún skilaði ítarlegum tillögum um hvað mætti gera til þess að efla hagsmunagæslu varðandi EES-samninginn og var þeim beint til ríkisstjórnar, til Alþingis, til stjórnsýslunnar og fleiri aðila. Þeirri vinnu var lokið 2007. Í framhaldinu var sett á önnur Evrópunefnd. Hennar verkefni var fyrst og fremst að fjalla um gjaldmiðilsmál og sat ég þar líka. Tillögurnar liggja allar á borðinu og hafa legið lengi, þ.e. að ef við ætlum að hafa aukin áhrif á framkvæmd EES-samningsins þá þurfi það að gerast með auknum mannafla.

Mér fannst áhugavert sem kom fram á fundinum í gær að það vantar umræðu um það hver þróun EES-samningsins verður. Eru stofnanir EFTA sem ætlað er að fylgjast með samningnum til þess bærar? Hafa þær nægilegan styrk til þess eða ekki? Hvaða áhrif hefur það? Þróun Evrópusambandsins sem er önnur stoð samningsins hefur verið allt önnur en þróun EFTA. Ríkjum í EFTA hefur að sjálfsögðu fækkað. Evrópusambandið hefur verið að fást við allt aðra hluti, svo sem gjaldmiðlasamstarf sem þeir hafa lent í vandræðum með. Þar eru knýjandi spurningar sem þarf að svara eins og til að mynda hvort sambandið ætli sér að fara í miklu nánara samstarf á sviði skatta, á sviði peningastefnu til þess að geta rekið sameiginlegan gjaldmiðil eða hvort það ætli að þróast með öðrum hætti. Sú togstreita virðist mér nokkuð sýnileg, en á meðan gildir EES-samningurinn og menn benda á að hann sé jafnvel embættismönnum í Brussel lítt kunnugur. Það er því umhugsunarefni hvernig við getum staðið að þessu fyrir utan að í Noregi stendur yfir talsverð umræða um það innan stjórnmálanna að fyrir Noreg séu valkostir framtíðarinnar annaðhvort þeir að ganga í Evrópusambandið eða gera tvíhliða samning við Evrópusambandið á borð við Sviss. Þar hafa menn efasemdir um EES-samninginn. Þetta er eitthvað sem ég tel að við þyrftum að ræða. Ef ekki fylgir fjárveiting þeirri hagsmunagæslu sem búið er að boða í stefnunni þá þekki ég það af fyrri reynslu að mjög erfitt getur verið að framfylgja stefnunni ef svigrúmið til þess er ekkert.

Ég ætlaði að nefna fjöldann allan af öðrum atriðum í skýrslunni en ætla að ljúka máli mínu á því að segja að ég tel mjög mikilvægt að við beitum okkur á alþjóðavettvangi í því sem við erum góð í og hér var nefnt áðan jafnrétti og kvenfrelsi. Ég er sammála því að þar hefur Ísland staðið sig vel. Ég held að við eigum líka að velta því fyrir okkur hvað annað við getum unnið með á alþjóðavettvangi (Forseti hringir.) og hvet sérstaklega til þess að það verði gert varðandi mengun og málefni hafsins.