144. löggjafarþing — 82. fundur,  19. mars 2015.

utanríkis- og alþjóðamál.

621. mál
[14:36]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir kröfu hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar. Hv. formaður utanríkismálanefndar situr hér í hliðarherbergi. Ég held að þetta sé brýnt fyrir nefndina að fjalla um í ljósi þess að Sverrir Haukur Gunnlaugsson, fyrrverandi ráðuneytisstjóri, eins og hv. þingmaður nefndi, var mjög harðorður í gær og orðaði það sem svo að enginn sýndi EES-samningnum ástúð eða umhyggju í íslensku stjórnkerfi um þessar mundir og það væri grundvallarástæða þess að illa gengi að vinna með samninginn og þar þyrfti að gera verulega gangskör. Ég held því að rétt sé að utanríkismálanefnd taki þetta til skoðunar og setji líka Evrópustefnu stjórnvalda í samhengi við fyrri tillögur.

Eins og ég nefndi áðan sýnast mér flestar tillögur Evrópustefnunnar vera mjög í takt við gamlar tillögur Evrópunefndar Björns Bjarnasonar og fleiri frá 2007 nema að því leyti, svo merkilegt sem það nú er, að lítið er um hlutverk Alþingis í þessum tillögum. Í þeim tillögum var sérstaklega kveðið á um að Alþingi skyldi skipa sérstaka Evrópunefnd sem mundi hafa það hlutverk að fara bæði með EES-samninginn og önnur málefni sem snúa að samskiptum við Evrópusambandið.

Það er kannski ástæða til þess að utanríkismálanefnd taki það til skoðunar og spurning hvort ekki sé ástæða til að þingið taki sjálft frumkvæði í því hvernig við fylgjumst með þessum samningi og gætum hagsmuna Íslands, því að þótt stjórnvöld beri þar auðvitað ábyrgð og stjórnsýslan sem starfar í umboði stjórnvalda beri þar alla ábyrgð er mikilvægt að þingið geti sinnt eftirlitshlutverki sínu og þingið þarf að hafa svigrúm til að geta það. Þótt þar hafi margt færst til betri vegar, til að mynda hvað varðar það að EES-innleiðingar koma talsvert fyrr til utanríkismálanefndar sem er mjög jákvætt og gott skref, held ég að sú vinna gæti verið miklu öflugri og betri.