144. löggjafarþing — 82. fundur,  19. mars 2015.

utanríkis- og alþjóðamál.

621. mál
[17:00]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er áhugavert að heyra. Sú tillaga sem hv. þingmaður kemur hér með mundi flokkast undir forvarnaráðstöfun. Ég velti tvennu fyrir mér í þessu sambandi; annars vegar hvernig hægt sé að bæta samskipti eða samtalið milli opinberra aðila sem fara með hlutverk á þessu sviði og svo hins vegar markaðarins, vegna þess að ljóst er að mjög mikið af mikilvægum kerfum í samfélagi okkar er í höndum einkaaðila. Þá þarf að huga að öryggisþáttum varðandi það sem er hjá hinu opinbera, varðandi fjarskipti, varðandi orku, varðandi bankastarfsemi og svo má lengi telja. Ég velti fyrir mér hvernig hann sjái fyrir sér þau samskipti.

Svo vil ég nefna annað sem væri nú kannski efni í sérstaka umræðu í þinginu einhvern tímann: Hvernig sér hv. þingmaður fyrir sér að við finnum jafnvægi milli þess að hafa með höndum einhvers konar eftirlit sem fylgist með eða er til þess fallið að bregðast við árásum í kerfinu, hvort sem það er í glæpsamlegum tilgangi, hernaðarlegum tilgangi eða hvað það nú er, og eins varðandi það sem ég veit að hv. þingmanni er mjög umhugað um, þ.e. persónuverndarsjónarmiðin, að ekki sé farið inn í einkalíf fólks eða einkamálefni fólks þegar eftirliti er sinnt?