144. löggjafarþing — 82. fundur,  19. mars 2015.

utanríkis- og alþjóðamál.

621. mál
[18:21]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get ekki annað en orðið við þeirri beiðni ágæts samþingmanns míns að koma hér upp. Ég hugsa að besti mælikvarðinn á batnandi samskipti Bandaríkjanna og Íslands sé verkefni sem við erum í raun að vinna að saman, sem er mjög áhugavert verkefni — ég ætla að draga til baka orðið „saman“, við erum að leita leiða til að hrinda í því í framkvæmd. Hv. þingmaður kallaði það öryggismiðstöð eða eitthvað þess háttar og var greinilega búinn að gleyma því hvað verkefnið heitir, það heitir leitar- og björgunarmiðstöð á Íslandi. Við erum að leita og erum í ágætu samstarfi og samtali við Bandaríkjamenn núna um að hjálpa okkur við að hrinda því í framkvæmd. Við höfum átt ýmsa fundi með Bandaríkjamönnum um að bæta hér loftrýmisgæslu og þess háttar. Ef hv. þingmaður er að meina hvort til sé eitthvert konkret dæmi sem sýni fram á að eitthvað hafi verið samþykkt eða gert sem lýsi bættum samskiptum er það líklega ekki svo. Hins vegar er alveg ljóst að andinn sem er í viðræðum okkar við Bandaríkjamenn er töluvert annar en verið hefur, enda var ekki vanþörf á því eftir það hvernig skilið var við Bandaríkjamenn á síðasta þingi, á síðasta kjörtímabili, varðandi samskiptin við þá. Það er náttúrlega ljóst að þegar við komum þarna inn voru málin með þeim hætti að það tekur tíma að vinna sig til baka, t.d. inni á þeim borðum sem hv. þingmaður nefnir varðandi samskipti við Bandaríkjamenn.

Það er rétt hjá fyrrverandi ráðherra og núverandi þingmanni að ég hef ekki enn þá hitt á tvíhliða fundi utanríkisráðherra Bandaríkjanna. Ég hef hins vegar átt óformlegt spjall við hann. Það þekkja allir ástæðurnar fyrir því, það er að sjálfsögðu út af þessu hvalaveseni öllu saman. En aðstoðarráðherra og aðrir hitta okkur gjarnan og ræða við okkur (Forseti hringir.) og það er mikill áhugi hjá Bandaríkjamönnum, meiri held ég en í mörg, mörg ár (Forseti hringir.) um að eiga góð samskipti við Íslendinga. Við erum mjög ánægð með það.