144. löggjafarþing — 89. fundur,  15. apr. 2015.

störf þingsins.

[15:04]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég er á sama stað og sú sem talaði á undan mér og verð að taka undir með formanni Verkalýðsfélags Akraness þegar hann gagnrýnir þessa hækkun stjórnarlauna hjá HB Granda upp á 33,3%, eins og hér kom fram, og að launafólki sé boðið upp á 3,5% launahækkun.

Það fólk sem þiggur stjórnarlaun hjá HB Granda og fleiri fyrirtækjum er oft og tíðum í öðrum störfum, vel launuðum störfum, þannig að þetta er viðbót við laun þess. Það er ekkert skrýtið að fólk spyrji sig hvort stjórnendur þessa fyrirtækis og margra annarra sem greiða að auki mikinn arð til eigenda sinna hafi ekkert siðferði og enga réttlætiskennd gagnvart sínu starfsfólki. Stjórnarmenn HB Granda eiga að skammast sín fyrir að sýna starfsfólki sínu aðra eins fyrirlitningu og felst í þessari hækkun stjórnarlauna á sama tíma og verkafólk hefur varla í sig og á þrátt fyrir langan vinnudag.

Ég spyr eins og formaður VA gerði: Steig enginn fram á hluthafafundinum í HB Granda til varnar íslensku fiskvinnslufólki?

En það er ekki bara íslenskt fiskvinnslufólk sem berst fyrir hækkun á smánarlegum launum, heldur fólk í ýmsum stéttum sem heldur samfélagi okkar á floti. Ég er hrædd um að það fari um ferðaþjónustuaðila ef það kemur til verkfalls. Til að halda því til haga er starfsfólk til dæmis veitinga- og gistihúsa í launaflokki 5 hjá Starfsgreinasambandinu og fær þá á bilinu 208–215 þús. kr. í mánaðarlaun. Hvaða útspil ætlar ríkisstjórnin að leggja til þannig að hægt sé að koma í veg fyrir algjört kaos í þjóðfélaginu? Ætlar hún að fjölga seðlabankastjórum og leyfa hærri bónusa til toppanna í fjármálafyrirtækjum? Eða hvað annað stendur fólki til boða sem berst með lægstu launin?

Ég verð að vitna að lokum, virðulegi forseti, til þess sem Hrafn Jónsson sagði í Kjarnanum.

„Það virðist samt engu skipta hversu mikið af andafitu efri þrepin troða í sig — það ógnar engum stöðugleika — en um leið og skúringakona á Akranesi biður um meira en 2,8% hækkun á 214.000 krónurnar sínar þá leggjast allar plágur Egyptalands á okkur.“