144. löggjafarþing — 101. fundur,  4. maí 2015.

viðurlög við brotum á fjármálamarkaði o.fl.

622. mál
[17:48]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er best að ég segi hæstv. fjármálaráðherra hvernig er best að gera þetta. Það er best að þetta sé í heildarlöggjöf sem tekur til bæði uppljóstrara á einkamarkaði, eins og hér var skoðað að gera að hluta til, og í opinbera geiranum svo að það sé heildarlöggjöf sem tryggi réttarvernd uppljóstrara hvort heldur sem er og búi til ferla sem menn geti fylgt, fyrst sé þá farið í svokallaða innri uppljóstrun og svo ytri uppljóstrun ef því er að skipta.

Það sem er lykilatriði í þessu er að það séu tæki og tól til að tryggja almannahag sé á einhverjum tímapunkti eða inni í einhverri stofnun eða einhverju fyrirtæki verið að vinna gegn hagsmunum almennings. Þess vegna er það ágætisviðleitni hjá hæstv. fjármálaráðherra, sem ég er ánægður með, að hans menn skuli skoða þetta en mikilvægið er svo ótvírætt í mínum huga að okkur ber að setja heildarlöggjöf sem nær yfir allan málaflokkinn, hið opinbera og einkafyrirtæki.