144. löggjafarþing — 119. fundur,  4. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[11:05]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég skil vel þær áhyggjur. Ég held að það sé ástæða fyrir því að þær áhyggjur komi fram á þeim sveigjanleika sem verið er að gefa þarna. En ég skil líka hvaðan óskin um þetta er komin vegna þess að ráðuneytin eru misstór og það er gríðarlega erfiður, þungur og dýr prósess fyrir ráðuneyti að ráða inn nýtt fólk. Þar að auki er oft tekist á um það hvort ferlarnir séu í lagi, það koma líka oft kærur eftir á o.s.frv., þannig að ráðningarferlarnir þurfa að vera mjög skýrir, mjög gagnsæir og mjög faglegir.

Þess vegna hef ég verið talsmaður þess að menn reyni að vera með einhverja miðlæga starfsmannaskrifstofu í stjórnsýslunni sem sjái um þessar ráðningar, láti það ekki hvíla á einstaka ráðuneytum heldur sendi ráðuneytin óskir um hvers lags starfsmann þarf og svo fari ákveðin skrifstofa í gegnum það. Mögulega gætum við frekar leyst þetta þannig að vera með einhverja slíka (Forseti hringir.) miðlæga skrifstofu og hún mundi auglýsa, þá gætu opinberir starfsmenn líka sótt um önnur störf og flutt sig þannig.