144. löggjafarþing — 119. fundur,  4. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[11:11]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Katrínu Júlíusdóttur fyrir mjög skýr svör. Við erum algjörlega sammála um mikilvægi þess að sveigjanleiki sé til staðar í stjórnsýslunni til að nýta mannauðinn og þekkinguna. Hv. þingmaður fór mjög vel yfir það í ræðu sinni og hér í svari. Mig langar aðeins til að fylgja því eftir, af því að hv. þingmaður nefndi störf án staðsetningar, hvort megininntakið í þeirri hugmyndafræði sé ekki í samræmi við það aukna lagalega svigrúm sem er í því frumvarpi sem við erum að ræða?

Varðandi siðareglurnar — ef við tölum almennt um að siðareglur eigi að vera hluti af daglegum athöfnum og virkur þáttur í starfi, leiðsögn og viðmið um ákvarðanir, um eðlilega eftirbreytni og fagmennsku, velti ég því fyrir mér (Forseti hringir.) hvort það sé þá ekki mikilvægast að starfsfólkið sjálft sé að höndla og vinna með þessar reglur dag frá degi.