144. löggjafarþing — 119. fundur,  4. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[11:52]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Þessu var svarað á fundi í háskólanum, að það væri betra, þegar dæma á um það hvort menn séu að brjóta siðareglur, að óháður aðili geri það. Menn eiga ekki að setja sjálfum sér reglur ef hægt er að komast hjá því. Það er ekki góð regla að menn setji sjálfum sér reglur. Við þingmenn gerum það. Það eru margir sem þurfa að koma að því. Þjóðin á að sjálfsögðu að geta komið að því, á að lágmarki að geta stöðvað okkur ef við erum í einhverju bulli, að hafa málskotsréttinn sjálf, að kalla til sín mál sem við samþykkjum í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þingmaðurinn virðist vera sammála því.

Ef menn vilja minnka spillingu sem er skilgreind á þann veg að farið sé með almannavaldið í þágu sérhagsmuna, ef menn vilja minnka vanrækslu og ef menn vilja að betur sé farið með vald til hagsbóta fyrir okkur öll þá deila þeir valdi, þeir dreifa því. Þeir færa það ekki inn á miðjuna þar sem einn aðili getur tekið ákvarðanir og fengið á sig einhvers konar pólitíska skömm sem innan fulltrúalýðræðisins er hægt að keyra af sér í aðdraganda kosninga.