144. löggjafarþing — 119. fundur,  4. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[11:53]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég er í minni hluta í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og vil taka það fram varðandi þetta frumvarp, út af þeirri umræðu sem fram fór um breytingar á 11. gr. laganna, að því hefur margoft verið lýst yfir í ræðustól að minni hlutinn styður þá breytingartillögu sem er borin fram í meirihlutaálitinu. Ég held að það sé alveg ljóst en það er það eina sem við styðjum sem kemur að þessu máli.

Hv. þingmaður er maður upplýsingar og gagnsæis sem er mjög svo áríðandi atriði í samtíðinni. Ekki síst þurfum við að passa okkur á því að upplýsingarnar séu ekki svo miklar og margbreytilegar að fólk týnist í frumskóginum. Þess vegna langar mig til að spyrja hv. þingmann hvað honum finnist um 6. gr. þessa lagafrumvarps sem er um breytingu á 17. gr. stjórnarráðslaganna. Þarna er boðið upp á eitt blæbrigðið enn um hvernig má haga skipulagi ráðuneyta. Það er verið að leyfa að sett sé upp einhver stjórnsýsluskrifstofa eða eitthvað slíkt sem gæti jafnvel átt að vera einhvers staðar annars staðar á meðan verið er að flytja stjórnsýsluna út úr menntamálaráðuneytinu. Hvað finnst honum um þetta fyrir fólkið í landinu sem þarf að nota stjórnsýsluna? Er þetta gott system?