144. löggjafarþing — 119. fundur,  4. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[12:00]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Það var rætt dálítið um þetta á málstofunni eða í fyrirlestrunum í háskólanum um daginn og siðareglur eru náttúrlega alltaf siðareglur. Þær eru bara í samfélaginu, þær eru í höfðinu á fólki og í hugum og hjörtum fólks, þar eru siðareglurnar til staðar. Það sem er verðmætt við að skrá þær niður og að þær liggi frammi er að það er hægt að benda á þær. Þú ert kominn með samantekt af siðareglum. Ég hef prófað að skrifa siðareglur fyrir félagasamtök og slíkt. Þú byrjar á því að finna siðareglur annars staðar, þig vantar lista, það er enginn með listann í hausnum þó að hann hafi siðferðisvitund, það er því gott að hafa listann fyrir framan sig og geta bent á hann. En það er líka gott að þegar listinn liggur frammi og almenn sátt er um þann lista — eins og til dæmis að menn eigi að forðast hagsmunaárekstra þegar þeir fara með vald o.s.frv. — þá er hægt að færa þær í lög, það er auðveldara að færa þær í lög.

Við píratar erum með frumvarp til laga um sannleiks- og upplýsingaskyldur ráðherra gagnvart þinginu annars vegar og hins vegar að þingmenn skuli forðast hagsmunaárekstra; meðal annars það að ef þeir nota innherjaupplýsingar, í starfi sínu hér, sér til hagsbóta þá varði það fangelsi.