144. löggjafarþing — 119. fundur,  4. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[12:11]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Forseti. Þingmaðurinn talaði um það hve miklu máli skipti að menn vissu hvað þeir væru að gera þegar lög væru sett. Mér heyrist á henni að henni líki það ekki vel að líkja lagasetningu við pylsugerð en við sem setjum lögin viljum samt helst hafa það þannig að ekki sé verið að fela neitt í þeirri gerð, í lagagerðinni; menn segja stundum að verið sé að fela eitthvað í pylsugerðinni, samt finnast mér pylsur almennt mjög góðar, þannig að ég hef ekki miklar áhyggjur af því.

Mig langar að spyrja hv. þingmann, og það er ekki bara þetta frumvarp sem er þannig, þó að það sé stundum kallað skólabókardæmi um eitthvað: Aðalatriði þessa frumvarps virðist vera 1. gr. um að ráðherra ráði einn hvar setja megi niður stofnanir, hvar þær eigi að vera staðsettar, en með í för er fullt af öðrum farþegum, það eru alls konar farþegar í þessu frumvarpi. Það verður til þess, finnst mér, og mig langar til að spyrja hv. þingmann hvort hún deili þeirri skoðun ekki með mér, að það er ekki fyrr en eftir mjög ítarlega umræðu að í ljós kemur hve mikið fylgir með. Ég verð að segja að frá mínum bæjardyrum séð er þetta mikill galli. Mér finnst að huga þurfi sérstaklega að þessu — þetta hefur komið fyrir fyrr. En hvað finnst henni um þessa aðferð?