144. löggjafarþing — 119. fundur,  4. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[15:13]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Já, ég spyr í fullri vinsemd vegna þess að það sem mér hefur fundist loða við þessa sögu í aldarfjórðung og raunar miklu lengur er að ástæðan fyrir flutningi stofnana út á land — því að hér á þingi eru fluttar tillögur eða teknar ákvarðanir í ráðuneytum um að koma upp störfum úti á landi, opinberum störfum á kostnað starfa í Reykjavík og nágrenni, Hafnarfirði í tilviki Fiskistofu — sé sú að efla byggð utan höfuðborgarsvæðisins hjá þeim þriðjungi sem þar býr nú, sem er auðvitað gagnmerk pólitísk stefna en oft reist á staðbundnum grunni án þess að taka tillit til þess hvað í raun og veru hentar landinu öllu, allri landsbyggðinni að Reykjavík meðtalinni og nágrannabyggðum hennar.

Ég held að ef menn hefðu tækifæri til að fara yfir þessar tilraunir sé þetta þannig að byggðin hafi eflst mun minna en ætlað var og að breytingarnar hafi almennt ekki verið í hag stjórnsýslunni, þá á ég ekki við þá sem þar vinna heldur gagni af stjórnsýslunni fyrir landsmenn og á við þá skynsamlegu meðferð fjár sem við gerum kröfur um að sé viðhöfð í stjórnsýslunni. Þess vegna spyr ég.

Það eru þarna tvö sjónarmið og þau stangast á. Ég er hins vegar sammála þingmanninum um að ýmsar leiðir eru til að þessu marki. Tilefni þessa frumvarps virðist vera öfgaleið í aðra átt, sú sem menn byrjuðu að hverfa frá einmitt upp úr 1990 á þeim tíma sem þingmaðurinn vitnar til.