144. löggjafarþing — 119. fundur,  4. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[15:17]
Horfa

Frsm. meiri hluta stjórnsk.- og eftirln. (Brynjar Níelsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Af því að hv. þm. Össur Skarphéðinsson eyddi nú megninu af ræðu sinni (ÖS: Þriðjungi.) — þriðjungi — í að ræða um mig og mína ræðu þá vil ég aðeins fara í andsvar út af þessu; ég þyrfti helst að fara í ræðu það var svo margt sem kom fram hjá hv. þingmanni.

Þetta er ekki valdfrekjufrumvarp. Hér er eingöngu verið að veita almenna lagaheimild til flutnings á stofnunum vegna dóms Hæstaréttar í málinu um Landmælingar. Þar fer Hæstiréttur orðum að því að nauðsynlegt sé að til staðar sé skýr lagaheimild. Menn hafa alltaf litið svo á að ákvörðun af þessu tagi væri eðlilegur hluti af stjórnunarheimildum ráðherra, alltaf hefur verið litið þannig á. Síðan kemur þessi dómur og þá telja menn réttast að bregðast við því með því að veita þessa almennu lagaheimild. Það breytir því ekki að þó að þessi almenna lagaheimild verði lögfest þá getur ráðherra ekki gert hvað sem er.

Eins og ég hef margoft sagt, bæði í ræðu og rituðu máli, er vald vandmeðfarið. Ráðherra verður eftir sem áður að taka tillit til annarra reglna sem gilda. Það þurfa að vera málefnaleg sjónarmið til staðar. Það þarf að vera ákveðinn undirbúningur að slíkri ákvörðun. Það er ekki þannig að hæstv. ráðherra ákveði með einu pennastriki að 70 manns verði færðir til á morgun, vegna þess að önnur lög gilda líka, það breytir engu um það. Það þurfa að vera málefnaleg sjónarmið og það þarf að taka tillit til aðstæðna hverju sinni.

Það er erfitt að greina þetta nákvæmlega í lagatexta því að þá geta menn farið að gagnálykta: Ja, (Forseti hringir.) þetta tilvik er ekki uppi, þá megum við þetta. Ég held því að búið sé að útskýra þetta mjög vel í dómi Hæstaréttar og af umboðsmanni Alþingis þannig að þetta sé í raun og veru ekki flókið.